Fýll er stór gráleitur sjófugl sem minnir á máf, þéttvaxinn og hálsdigur með langa og mjóa vængi. Ungfugl er eins og fullorðinn og kynin eru eins.
Fýll er auðgreindur frá máfum á einkennandi fluglagi, tekur fáein vængjatök og lætur sig svo svífa á stífum vængjunum. Hann er léttur á sundi en á oft erfitt með að hefja sig á loft, sérstaklega í logni. Fýll er þungur til gangs. Leitar sér ætis bæði á flugi og syndandi, gjarnan kringum fiskiskip, í höfnum og við fiskvinnslustöðvar.
Smáfiskur, einkum loðna og sandsíli, einnig krabbadýr, smokkfiskur og önnur sjávardýr. Úrgangur frá fiskiskipum er mikilvæg fæða, etur einnig úrgang frá fiskvinnslustöðvum. Etur oftast á yfirborði, en á það til að taka grunnar dýfur.
Fýllinn er að mestu farfugl. Hann hefur breiðst mjög út á undanförnum áratugum og öldum og er talið að það stafi af mikilli fæðu sem fylgdi auknum hvalveiðum og síðar vaxandi fiskveiðum í Norður-Atlantshafi. Hann hefur fært sig inn til landsins og verpur allt að 50 km frá sjó. Honum hefur þó fækkað undanfarið eða um 30% á síðasta aldarfjórðungi. Fýll er útbreiddur varpfugl við strendur Norður-Atlantshafs og nyrst við Kyrrahaf.
Fýlar hverfa að mestu frá landinu á haustin og halda sig í norðanverðu Atlantshafi en heimsækja þó oft vörpin í mildu veðri og eru sestir upp snemma, eða í janúar til mars. Fýlar frá Norðausturlandi flakka víða eftir að þeir yfirgefa landið. Flestir eru á hafsvæðinu milli Grænlands og Nýfundalands eða við Suðvestur-Grænland en einhverjir fara í átt að Svalbarða, í Barentshaf og alla leið austur til Novaja Zemlja.
Af fuglavefur.is