Flugslysaæfing á Bíldudals flugvelli

Regluleg flugslysaæfing var haldin á Bíldudalsflugvelli í morgun. Það er Isavia sem heldur slíkar æfingar reglulega um land allt.

Markmiðið er að viðhalda og skerpa á viðbragði ef á þarf að halda og því taka allir viðbragðsaðilar á viðkomandi svæðum þátt.

Æfingin hófst kl. 11 í morugn og voru viðbragðsaðilar frá björgunarsveitum, slökkviliði, sjúkraflutningum, lögreglu, Rauða krossinum, heilbrigðiskerfinu og Isavia boðaðir á vettvang. Fjöldi barna og unglinga úr grunnskólunum á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal léku þolendur í æfingunni en í heild tóku um 80 manns þátt í æfingunni. 

Æfingin gekk vel og náðust öll þau markmið sem sett höfðu verið. Góður taktur var í samvinnu hinna ýmsu viðbragðsaðila og náðist að leysa öll skilgreind verkefni. Viðbúið var að lykkjufall yrði á stöku stöðum, en ávallt tókst að bregðast við þeim og halda áfram. Æfingar á borð við þessa eru einmitt til þess að kalla fram hnökrana og lykkjuföllin svo hægt sé að greina þau og bæta úr sem lukkaðast afar vel þennan sólríka og svala laugardagsmorgun.

Síðasta laugardag var haldin sams konar æfing á Vopnafjarðarflugvelli sem heppnaðist einnig afbragðs vel. Viðbragðsaðilar fjölmenntu og sýndu og sönnuðu að þeir standa vel undir væntingum sem til þeirra eru gerðar á ögurstundu.

Meðfylgjandi eru myndir frá æfingunni í dag.

DEILA