Fjárfesting til framtíðar í fiskeldi

Fyrir Ísland sem velferðarríki er gríðarlega mikilvægt að laða til sín erlenda fjárfestingu á sem flestum sviðum atvinnulífsins.  Þannig eflast samfélögin og velferð þjóðarinnar eykst.  Erlent eignarhald er alþekkt í íslensku atvinnulífi og það hefur tíðkast víða til að mynda í verslun og þjónustu, veitingageiranum svo fátt eitt sé nefnt án þess að nokkur gagnrýni það.  Eftir bankahrunið var beinlínis leitað eftir erlendri fjárfestingu inn í landið til að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl og óskynsamlegt væri af stjórnvöldum að senda þau skilaboð til erlendra fjárfesta að fjárfestingar hér á landi séu óvelkomnar.

Á árunum 2010 – 2016 þegar uppbygging laxeldis á Íslandi var að hefjast, var gengið á milli íslenskra fyrirtækja og fjárfesta til þess að leita eftir fjármagni en ekkert íslenskt fyrirtæki hafði nægilega mikla trú, þekkingu eða fjármagn til að taka þátt í uppbyggingunni á þeim tíma.  Alls staðar var komið að lokuðum dyrum.

Þá var farið að leita út fyrir landsteinana og sem betur fer tókst að laða að fjárfesta sem höfðu trú, þekkingu og fjármagn.  Í Noregi var þetta allt til staðar og norsk fyrirtæki fengu þau skilaboð að Íslendingar vildu laða til sín erlent fjármagn enda var það opinberlega gefið út í kjölfar bankahrunsins til þess að rétta við íslenskt atvinnu og efnahagslíf.  Án þessara fjárfesta hefði sú mikla uppbygging sem síðan hefur átt sér stað aldrei orðið að veruleika og það hefur verið gífurlega mikils virði fyrir Íslenskt laxeldi að fá þekkinguna erlendis frá.

Af umræðunni upp á síðkastið mætti ráða að það sé glæpur að fá erlenda fjárfestingu inn í íslenskt atvinnulíf og þá einna helst laxeldi, að það sé glæpur að hagnast á atvinnustarfsemi en hagnaðurinn nú reyndar það sem í flestum tilfellum drífur reksturinn áfram.  Verði til hagnaður, þá er búið að greiða allan rekstrarkostnað, standa straum af fjárfestingum og vöxtum sem og allrahanda skatta s.s. virðisaukaskatt, launatengd gjöld og önnur opinber gjöld sem eru notuð til að greiða fyrir heilbrigðiskerfið, innviðauppbygginu, menntakerfið og all það sem fjármagnað er af ríki og sveitarfélögum. 

10.000 tonna laxeldi myndi til að mynda skila um 100 milljónum árlega inn í sveitarsjóð Múlaþings.  Íbúarnir hljóta að taka því fagnandi, þá fæst fjármagn til að laga skólana, göturnar, veitukerfið og aðra innviði auk þess að styrkja menninguna og margt fleira.

Síðustu misseri hefur eignarhlutur Íslendinga í laxeldi hér á landi verið að aukast en fyrirtæki eins og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, Síldarvinnslan og Skinney/Þinganes eru nú stórir hluthafar í íslensku laxeldi.  Íslenskt eignarhald í Ice Fish Farm er nú um 42%, fyrirtækið er á hlutabréfamarkaði og því geta allir þeir sem hafa áhuga og getu fjárfest í fyrirtækinu.

Þess misskilnings virðist gæta að tekjur af laxeldi, sem hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár, fari allar úr landi.  Það rétta er að milljarða fjárfesting erlendra fyrirtækja hér á landi hefu ekki verið að skila hagnaði og því hefur enginn hagnaður farið úr landi.  Til að mynda nam fjárfesting áranna 2017 – 2021 um 30 milljörðum króna og þær voru að mest öllu leyti gerðar á landsbyggðinni.  Enda eru laxeldisfyrirtækin íslensk og borga sína skatta og skyldur hér á landi.  Eftir stendur að fjármögnun á rekstri og fjárfestingum hefur rétt við fjölmörg sveitarfélög sem áður stóðu á brauðfótum.  Ákall eftir því að ríkið skapi störf á landsbyggðinni breytist samfara þessu úr fjöldasöng í einmanalegt raul.

Nú er íslenskt fiskeldi að nálgast stöðugleikatímabil, innlend þekking er að aukast, tækninni fleygir fram, þjónustufyrirtæki fyrir fiskeldi spretta upp hér og þar og greinin vex hratt.  Hundruðir fjölskyldna hafa nú lífsviðurværi sitt af laxeldi og framtíðin er björt.  Samkvæmt nýútkominni skýrslu Boston Consulting Group segir um sjókvíaeldi að náttúrulegar aðstæður á Íslandi eru hagstæðar til sjókvíaeldis. Gert er ráð fyrir að Ísland geti nær tvöfaldað framleiðslu í sjókvíaeldi innan núverandi regluverks á næstu tíu árum og að það muni skila um 5000 nýjum störfum, beinum og óbeinum. Skattar og gjöld til hins opinbera muni aukast um nærri 40 milljarða króna á ári.  Framtíðin getur því verið björt, ekki síst fyrir Austfirðinga og Vestfirðinga, ef rétt er haldið á spilunum.  Sveitarfélögin, fólkið á stöðunum og þau sem erfa landið munu njóta góðs af þeirri uppbyggingu og fjárfestingu sem framundan er.  Lykillinn að því er að fá meira erlent fjármagn inn í landið. 

Kristján Ingimarsson

Djúpavogi

DEILA