Efla á þjónustu sýslumannsembættanna á landsbyggðinni

Dómsmálaráðuneytið hefur undanfarið átt samstarf við önnur ráðuneyti um að efla þjónustu sýslumannsembættanna á landsbyggðinni með auknum verkefnum.

Í forgangi undanfarið hefur verið samstarf ráðuneytisins við innviðaráðuneytið um flutning verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga tengt innheimtu meðlaga o.fl. til sýslumannsins á Norðurlandi vestra, vegna samlegðar við verkefni innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi sem er á ábyrgð embættisins.

Lagafrumvarp sem fjallar um verkefnaflutninginn hefur verið lagt fyrir Alþingi og er þar miðað við að verkefni Innheimtustofnunar færist yfir til sýslumanns 1. janúar 2024. 

Flutningur verkefna Innheimtustofnunar til sýslumanns er eitt af þeim verkefnum sem dómsmálaráðuneytið hefur sett í forgang undanfarið til að fylgja eftir markmiðum aðgerðar A.8 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Gert er ráð fyrir að fregnir af öðrum verkefnum verði kynntar á næstu misserum á vef Stjórnarráðsins.

DEILA