Bolungavík: tillaga um 5 ára deild við Grunnskólann

Grunnskóli Bolungavíkur.

Starfshópur um þróun skólaþjónustu í Bolungavík leggur til að stofnuð verði deild fyrir fimm ára börn við Grunnskóla Bolungavíkur. Deildin verði hluti af Grunnskólanum og starfsfólkið verði starfsfólk Grunnskólans. Gjaldskrá fyrir mat, hressingu og gæslu verði sú sama og gildir fyrir aðra nemendur skólans.

Í tillögum starfshópsins kemur fram að áherslu verði lögð á að nýta aðalnámskrá grunnskóla og leikskóla og lesa þær saman. Þar verði áfram áhersla á hugmyndafræði leikskólans um notkun á leik við nám.

Í Grunnskólanum eru um 130 börn og er hægt að bæta deildinni við í núverandi húsnæði með tiltölulega litlum tilkostnaði. Gert er ráð fyrir þremur starfsmönnum vegna nýju deildarinnar, einum kennara og tveimur stuðningsfulltrúum.

Leikskólinn Glaðheimar er hins vegar fullsetinn og eru í 59 börn í skólanum og útilokað að hafa fleiri miðað við óbreyttar aðstæður. Fyrirsjáanlegt að börnum fjölgi samhliða íbúafjölgun. Með færslu fimm ára barna yfir í Grunnskólann færast 11 börn af leikskólanum sem skapar svigrúm þar. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að markmið bæjaryfirvalda væri að öll börn gætu fengið leikskólapláss frá 12 mánaða aldri en í dag er miðað við 18 mánaða aldur.

Sumarskóli

Í tillögum starfshópsins er einnig lagt til að fimm ára deildin við leikskólann, 1. og 2. bekkur Grunnskólans fari í sumarskóla frá skólalokum til 1.júlí. Sumarfrí í leikskólanum verði aðlagað þessum tíma þannig að sumarfrí verður ekki tekið í Glaðheimum fyrr en eftir 1.júli. Um staðsetningu sumarskólans er rætt um tvo möguleika. Annars vegar að hafa þetta á sama stað í skólanum. Hinsvegar að hafa þetta í Hrafnakletti og fá mat úr mötuneyti Glaðheima.

50% lækkun gjaldskrár fyrir 6 klst leikskóla

Starfshópurinn leggur til breytingar á gjaldskrá leikskólans Glaðheima þannig að fyrir 6 klst vist lækki gjaldið um 50% og verði 15.479 kr. á mánuði. Fyrir 8 klst vist verði óbreytt gjaldskrá 36.182 kr. og hækki fyrir 9 klst vistun úr 40.186 kr. í 44.190 kr. á mánuði.

Tillögurnar hafa verið kynntar í bæjarráði og hafa verið sendar til fræðslumálaráðs til umsagnar.

DEILA