Arnarlax: hagnaður 4 milljarðar í fyrra

Í skýrslu pwc um samfélagsspor Arnarlax á síðasta ári kemur fram að hagnaður varð af rekstri Arnarlax á árinu 2022. Skattalegur hagnaður fyrir nýtingu yfirfæranlegs taps nam 3.974 millj. kr. og að teknu tilliti til nýtingar á skattalegri inneign fyrri ára mun félagið greiða 149 millj. kr. í tekjuskatt á árinu 2023. Rekstraráætlanir félagsins gera ráð fyrir hagnaði næstu ár og að félagið muni þar með greiða tekjuskatt samhliða honum.

Arnarlax var stofnað 2009 á Bíldudal við Arnarfjörð. Bíldudalur er heimabær Matthíasar Garðarasonar, stofnanda félagsins. Í dag er fyrirtækið stærsta fiskeldisfyrirtæki á Íslandi. Sjókvíaeldi hófst árið 2014 þegar 500.000 fiskar voru settir út í sjókvíar. Tveimur árum síðar, í lok árs 2016, var fyrsti sölureikningurin gefinn út fyrir seldum eldisfiski.

Norska fyrirtækið Salmar eignast hlut í Arnarlaxi 2015 og fjórum árum seinna fer hlutur þess yfir 50%. Árið 2020 er Arnarlax skráð á Euronext Growth í kauphöllinni Osló.

Höfuðstöðvar félagsins og sláturhús eru á Bíldudal, skammt frá sjókvíum í nærliggjandi fjörðum. Þá er félagið með söluskrifstofu í Reykjavík og fjórar seiðeldisstöðvar, þrjár þeirra eru á Suðurlandi og ein á Vestfjörðum.
Um 5,5% af verðmætum vöruútflutnings Íslands á árinu 2022 var vegna útflutnings í fiskeldi og má ætla að um 2,5% séu vegna útfluttra afurða Arnarlax og rúmlega 3% af verðmætum útfluttra afurða fari í gegnum vinnsluhús félagsins á Bíldudal.

Fjárfestingar 12,5 milljarðar króna á þremur árum

Miklar fjárfestingar hafa átt sér stað fyrir uppbyggingu félagsins og hefur megináhersla á árunum 2021 og 2022 verið í seiðaeldisstöðvum á landi, auk kvía, pramma og þjónustubáta. Heildarfjárfestingar félagsins árið 2022 voru tæpir 5 milljarðar sem koma til viðbótar við tæpa 3 milljarða árið 2021. Arnarlax hefur markvisst unnið að stækkun og er fyrirhugað að fjárfesta fyrir 4,5 milljarða króna á árinu 2023.

DEILA