Arctic Fish: íbúafundir í kvöld og á morgun

Mikil uppbygging er í Bolungavík tengd laxeldi.

Laxeldisfyrirtækið Arctic Fish heldur kynningarfundi í kvöld í Bolungavík og annaðkvöld á Tálknafirði um starfsemi og framkvæmdir fálgsins á Vestfjörðum. Farið verður yfir yfirstandandi verkefni, árangur og framtíðarsýn.

Daníel Jakonsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar segir að fundirnir séu liður í ASC vottun sem laxeldið hefur fengið. Einn liður í vottuninni er að halda reglulega fundi og kynna fyrir íbúunum það sem er að gerast og gefa þeim kost á að spyrja og fá svör um starfsemina.

Mikil uppbygging er í gangi hjá Arctic Fish bæði í Bolungavík og á Tálknafirði, annars vegar við nýtt laxasláturhús í Bolungavík og hins vegar við stórfellda stækkun seiðaeldisstöðvarinnar í Norður Botni í Tálknafirði. Nema framkvæmdirnar 7 – 8 milljörðum króna.

Vinna við sláturhúsið er á lokastigi og segir Daníel að stór hluti af tækjunum séu komin og verið sé að vinna að uppsetningu. Stefnt er að því að prófanir á búnaði hefjist í júní og starfsemin verði komin í full afköst í júlí.

Fundirnir hefjast kl 20 og verður fundurinn í kvöld í Félagsheimili Bolungavíkur og á morgun í Hópinu, Tálknafirði.

DEILA