Vinstri grænir: vilja tryggja 48 daga á strandveiðum

Á landsfundi Vinstri grænna, sem haldinn var um síðustu helgi var gerð sérstök ályktun um strandveiðar. Þar er lögð áherslu á mikilvægi strandveiða og eflingu þeirra.

Landsfundurinn leggur áherslu á að aflaheimildir í 5,3% hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins verði auknar í áföngum í 8-10%. Landsfundurinn vill einnig tryggja þann sveigjanleika innan kerfisins að ráðherra sé heimilt að flytja aflaheimildir til þess að tryggja ávallt 48 daga til strandveiða ár hvert.

Þá segir í ályktuninni að mikil óvissa ríki ár hvert meðal sjómanna um aflaheimildir, sem komi í veg fyrir það að smábátasjómenn geti treyst á kerfið og sinnt strandveiðum sem öruggri atvinnugrein. Því telur landsfundurinn að einfalda þurfi kerfið til þess að það sé fyrirsjáanlegt.

„Með handfæraveiðum er minna álag á fiskistofna og lífríki sjávar. Veiðarnar eru stundaðar með rafknúnum handfærarúllum og bátarnir eyða litlu eldsneyti í dagróðrum. Mikil tækifæri eru til orkuskipta með raf- eða rafeldsneytisvæðingu innan smábátaflotans sökum stærðar bátanna.“

Í ályktuninni er ekkert minnst á að taka upp að nýju svæðaskiptingu strandveiða, en Matvælaráðherra og þingmaður vinstri grænna lagði fram lagafrumvarp á Alþingi um það á mánudaginn. Þau áform hafa mætt mikilli andstöðu meðal smábátasjómanna meðal annars úr röðum vinstri grænna á Vestfjörðum. Landssamband smábátamanna leggst hart gegn svæðaskiptingunni.

Athyglisvert er að í ályktuninni segir að landsfundurinn vilji „tryggja þann sveigjanleika innan kerfisins að ráðherra sé heimilt að flytja aflaheimildir til þess að tryggja ávallt 48 daga til strandveiða ár hvert.“ Svæðaskiptingin er rökstudd með því að taka þurfi hana upp þar sem fækka þurfi róðradögunum og stöðva veiðarnar fyrr en ella. Þá standi bátar á norðausturlandi verr að vígi en bátar á vestanverðu landinu. Það þarf enga svæðaskiptingu ef tryggðir eru 48 dagar til strandveiða og áhersla fundarins er á 48 daga strandveiðar.

DEILA