Vesturferðir: framkvæmdastjóra sagt upp

Vesturferðir eru til húsa í Edinborgarhúsinu.

Guðmundi Birni Eyþórssyni, framkvæmdastjóra hefur verið sagt upp störfum og er hann hættur. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta var hann kallaður á fund tveggja stjórnarmanna og gefnir þeir kostir að segja upp eða vera sagt upp. Ástæður uppsagnarinnar hafa ekki fengist uppgefnar.

Guðmundur Björn Eyþórsson staðfesti í samtali við Bæjarins besta að vera hættur störfum en vildi að öðru leyti ekki veita frekari upplýsingar um málið. Sagðist hann þó fara í góðu. Guðmundur sagðist hafa skilað á síðasta stjórnarfundi ársreikningi fyrir síðasta ár og hefði verið góður hagnaður af starfsemi Vesturferða og lausafjárstaðan hefði aldrei verið betri. Fyrirsjáanlega væri gott rekstrarár framundan.

Hagnaður varð um nærri 13 milljónir króna af rekstri ársins 2021 og tekjur 197 m.kr. Eignir voru 21 m.kr. í lok árs 2021 og eigið fé 6 m.kr.

Ferðamálasamtök Vestfjarða er stærsti eigandi Vesturferða ehf með 24,2% hlutafjár og Hvetjandi hf eignarhaldsfélag er næststærsti hluthafinn með 9,7%.

Á síðasta ári seldu Ferðamálasamtökin hlut sinn til Sjóferða ehf en þau kaup hafa ekki gengið eftir.

DEILA