Á fyrstu tveimur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í tæpa 52 milljarða króna. Um tæpa 9% aukningu er að ræða frá sama tímabili í fyrra í krónum talið, en ef leiðrétt er fyrir gengi er aukningin tæp 3%.
Útflutningsverðmæti allra afurðaflokka hefur aukist á tímabilinu að undanskildu fiskimjöli og lýsi. Samanlagt hefur mjöl og lýsi dregist saman um tæp 16% á milli tímabila, leiðrétt fyrir gengi. Á sama kvarða er aukning í söltuðum og þurrkuðum afurðum (2%), ferskum afurðum (3%), frystum heilum fiski (5%), frystum flökum (7%), frystri rækju (13%) og öðrum sjávarafurðum (58%).
Vafalaust setur loðnan svip sinn á útflutningstölurnar í ár og breytingu í einstaka vinnsluflokkum milli ára. Til að mynda koma loðnuhrogn við sögu í flokknum aðrar sjávarafurðir.
Endanleg sundurliðun niður á tegundir liggur ekki fyrir í útflutningstölum febrúarmánaðar, en loðnuhrogn frá síðustu vertíð voru talsvert fyrirferðarmikil í útflutningi nú í janúar.