Suðureyri: mygla í grunnskólanum

Grunnskólinn Suðureyri.

Mygla greindist í 4 sýnum af 10 sem tekin voru í síðasta mánuði Grunnskólanum á Suðureyri. Þrjú af sýnunum fjórum sem greindust mygluð voru tekin í gegnum gólfdúk og múrílögn og eitt sýnið var tekið í útvegg. Tvö sýnanna voru á 2. hæð skólans.

Að mati Eflu, sem annaðist verkið, eru aðkallandi aðgerðir í húsnæði:
• Afmarka rými þar sem greinst hefur mygla, setja upp rafdrifnar útsogsviftur til að tryggja undirþrýsting frá menguðum rýmum, samhliða að fjarlægja innbú og húsmuni út úr rýmum, fyrirbyggja krosssmit milli rýma
• Hreinsa burt rakaskemmt byggingarefni og koma þurrkun í ferli.
• Opna klæðningu utanhúss og komast fyrir leka inn í byggingu.

Viðhaldsaðgerðir sem hafa verið settar í ferli:
• Gluggi í stigagangi var pantaður sumarið 2022 (suðvesturhlið), og er kominn til Ísafjarðar. Bíður ísetningar.
• Gluggi og útihurð á gangi 1.hæðar (norðvesturhlið) var pantaður haustið 2022, efni komið og bíður ísetningar.

Viðhaldsaðgerðir sem æskilegt er að fara í:
• Kjallari: Bíður aðgerða, þarf að einangra upp undir botnplötu í skriðrými og loka gati inn í skriðrými
• Skoða steyptan útvegg á norðausturhlið, taka klæðningu af og þétta útvegg.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi málið á fundi sínum í gær og bókaði að það telur mikilvægt að brugðist sé við á sama hátt við myglu í skólahúsnæði í öllum byggðakjörnum.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að útbúa minnisblað um fyrirkomulag við breytingar á skólahaldi svo minnst röskun verði á skólahaldii, svo hægt sé að taka ákvörðun um framhald málsins.

DEILA