Strandagangan var haldin í 29. skiptið um síðustu helgi og var mjög góð þátttaka eða 200 manns. Erla Björk Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, Skíðafélags Strandamanna, SFS, segir að í fyrsta skipti í sögu Strandagöngunnar og skíðaganga almennt á Íslandi hafi verið boðið að keppa í kynlausum flokki í 5 km og 10 km vegalengdum. „Aðeins einn keppandi var að þessu sinni í kynlausum flokki en vonandi verða þeir fleiri á næstu árum. Við hjá Skíðafélagi Strandamanna erum með tvo iðkendur sem eru trans.“
Kynlaus flokkur er fyrir þau sem skilgreina sig fyrir utan kynjatvíhyggjuna, s.s. tilheyra hvorki karla- né kvennaflokki og/eða einstaklinga sem kjósa að keppa ekki samkvæmt því kyni sem skráð er í þjóðskrá.
„Með þessu erum við í fararbroddi í skíðaíþróttinni að bjóða öll velkomin til keppni hjá okkur. Vonandi verður þetta hvati fyrir önnur íþróttafélög að taka vel á móti öllum einstaklingum í öllum íþróttagreinum. Bogfimisamband Íslands hefur einnig staðið sig vel í þessum málum og býður upp á kynlausa flokka á sínum mótum.“