Snjóflóð á Neskaupstað – neyðarstig almannavarna

Frá Neskaupstað. Mynd: austurglugginn.is

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi lýst yfir neyðarstigi Almannavarna vegna snjóflóða sem féllu í Neskaupsstað í morgun, mánudaginn 27.mars.

Ákveðið hefur verið að rýma önnur svæði þar sem snjóflóðahætta er talin vera, bæði á Neskaupstað og á Seyðisfirði. Fjöldahjálparstöðvar hafa verið opnaðar á báðum stöðum.

Rétt eftir klukkan sex í morgun féll snjóflóð rétt utan við Neskaupsstað, og rétt um sjö féll annað flóð.  Seinna flóðið féll á nokkur hús. Björgunarfólk er að störfum á staðnum.

Björgunarsveitir af Austurlandi hafa verið boðaðar út, og Vegagerðin, til að ryðja leiðir fyrir björgunaraðila.

Neyðarstigi Almannavarna hefur verið lýst yfir í Neskaupstað og það eru tilmæli til íbúa þar að halda sig heima og þeim megin í húsum sem fjær eru fjallshlíð. Samhæfingarstöð Almannavarna hefur verið virkjuð.

Fréttavefurinn austurglugginn.is skýrir frá því í morgun að snjóflóð, sem féll úr Nesgili ofan Neskaupstaðar í morgun, hafi endað á fjölbýlishúsi við Starmýri. Umfangsmikil rýmingaraðgerð sé þar nú hafin. Hús hefur einnig verið rýmt á Seyðisfirði.

„Staðfest er að tvö flóð hafa fallið á Norðfirði í morgun. Annað innan við varnargarðana ofan Urðarteigs, yfir veg og í sjó fram.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands féll hitt skömmu síðar úr Nesgili, fyrsta gilinu utan við varnargarðana ofan bæjarins. Staðfest er að það féll á fjölbýlishús við götuna Starmýri. Bílar lentu á blokkinni og eru skemmdir á henni.

Umfang flóðsins er enn óljóst, en það virðist hafa lent að minna leiti á nálægum húsum. Verið er að ganga úr skugga um að ekki hafi orðið slys á fólki.“

DEILA