Skotíþróttafélag Ísafjarðar opnaði á laugardaginn nýja og veglega aðstöðu fyrir píluíþróttina í aðstöðu félagsins á Torfnesi. Undirbúningur hefur staðið yfir síðan í haust og að sögn Páls Brynjars Pálssonar formanns deildarinnar hefur gengið vel að afla búnaðar og innrétta aðstöðuna sem er undir stúkunni á Torfnesvellinum. Kostnaður er allnokkur eða hátt á aðra milljón króna og segir Páll Brynjar að fengist hafi styrkir til þess að standa undir honum.
Fjölmargir lögðu leið sína á laugardaginn á Torfnesið til þess að skoða aðstöðuna og æfa sig í píluköstum. Mátti sjá ýmsa efnilega kastara munda pílurnar. Opið verður reglulega þrisvar í viku til æfinga og er útlit fyrir að þessi nýja íþrótt á Ísafirði muni njóta töluverðra vinsælda.
