Raknadalshlíð verður vöktuð

Staparnir á Raknadalshlíð. Mynd: Rannveig Haraldsdóttir.

Vegagerðin hefur svarað erindi Vesturbyggðar sem óskaði eftir því  að Raknadalshlíð við norðanverðan Patreksfjörð verði vöktuð hjá ofanflóðavakt. Einnig var farið fram á að bæta fjarskiptasamband á hlíðinni.

Á Raknadalshlíðinni er mikil snjóflóðahætta, en undir hlíðinni keyrir m.a. skólabíll alla virka daga með börn á leið í Patreksskóla. Hlíðin er ekki vöktuð hjá ofanflóðavakt Veðurstofu og litlar eða engar varnir á því að snjóflóð falli á veginn. Eins er fjarskiptasamband á Raknadalshlíðinni mjög stopult.

Í svari Vegagerðarinnar segir að bókun bæjarráðs Vesturbyggðar hafi verið kynnt á yfirstjórnarfundi Vegagerðarinnar í lok febrúar.

„Vegagerðin hefur vissulega áhyggjur af þessum vegi og hefur fyrir nokkru hafið samtal við Veðurstofuna til að koma upp vöktun á þessum kafla. Til stendur að setja þar upp mæla.
Vegagerðin er einnig meðvituð um fjarskiptasamband á svæðinu og telur úrbóta þörf.“

DEILA