OV: samið um Kvíslatunguvirkjun 9,9 MW

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var af við undirritun samningsins eru, talið frá vinstri: Sölvi R. Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs OV Elías Jónatansson, orkubússtjóri Hjörtur Númason, fulltrúi landeigenda Ásgeir Margeirsson, verkfræðingur og ráðgjafi landeigenda

Orkubú Vestfjarða ohf. (OV) og landeigendur Gilsstaða í Steingrímsfirði í Strandabyggð hafa gert með sér samning um heimild OV til að rannsaka hagkvæmni þess að reisa allt að 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í landi Gilsstaða, svokallaða Kvíslatunguvirkjun.  Samningurinn felur jafnframt í sér að landeigendur heimila OV að nýta land og vatnsréttindi til að reisa virkjunina að rannsóknum loknum,  verði niðurstöður jákvæðar. 

Gangi áætlanir eftir má gera ráð fyrir að virkjunin geti hafið rekstur fyrir árslok 2027. Stofnkostnaður virkjunarinnar er áætlaður um 5 milljarðar króna.

Ráðgert er að rannsóknir fari á fullt í sumar og standi yfir eins lengi og þörf krefur.  Um er að ræða helstu umhverfisþætti sem hafa áhrif á lífríki og landslag.  OV hefur þegar ákveðið að leggja til við Strandabyggð og Skipulagsstofnun að virkjunin fari í umhverfismat.  Frekari verkhönnun og skipulagsgerð verður unnin samhliða í kjölfarið á nauðsynlegum rannsóknum þar að lútandi.

Vonir standa til að umhverfismatsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir eftir mitt næsta ár og að þá liggi einnig fyrir samþykkt breyting á aðalskipulagi og deiliskipulagi.  Taki stjórn OV ákvörðun um byggingu virkjunarinnar yrði í  kjölfarið hægt að sækja um nauðsynleg leyfi og svo unnt yrði að hefja framkvæmdir á árinu 2025. 

400 m fallhæð

Kvíslatunguvirkjun nýtir vatnasvið heiðarinnar vestan Selárdals. Miðlunarlón er áformað í Svartagilsvatni og inntakslón er áformað í 418 metra hæð yfir sjávarmáli, í Efri Kotvötnum. Stíflur verða byggðar við inntaks- og miðlunarlón. Frá inntakslóni yrði lögð niðurgrafin þrýstipípa að stöðvarhúsi í Selárdal, í 27 metra hæð yfir sjávarmáli. Affallsvatnið verður leitt út í Selá.  Engin mannvirki eru fyrirhuguð í ánni sjálfri sem gætu haft áhrif á fiskgengd í henni.

Virkjunin yrði tengd með 33 kV jarðstreng til Hólmavíkur, að dreifikerfi OV.  Dreifikerfið á öllu Strandasvæðinu, Inn-Djúpi og Reykhólasveit er samtengt og  tengist flutningskerfi  Landsnets í Geiradal. 

Kvíslatunguvirkjun hefur mjög jákvæð árif á afhendingaröryggi raforku í Strandabyggð og á Ströndum, en með tilkomu virkjunarinnar verður aðveitustöð OV á Hólmavík orðin „hringtengd“.  Þar sem afl Kvíslatunguvirkjunar gerir meira en að anna allri aflþörf svæðisins og miðlunargeta hennar er góð, þá er hægt að nýta fullt afl hennar á vetrum þótt afrennsli að miðlunar- og inntakslóni hennar sé í lágmarki.  Virkjunin getur því komið að miklu leyti í stað olíuknúins varaafls á svæðinu auk þess sem aukning olíuknúins varaafls vegna fyrirhugaðra orkuskipta verður óþörf á þessu svæði.

Styrkir raforkukerfið á Ströndum

Kvíslatunguvirkjun mun styrkja raforkukerfið á svæðinu verulega og um leið hafa jákvæð áhrif á rekstraröryggi smærri virkjana á svæðinu sem eru í bígerð.

Fljótlega í skipulagsvinnunni sem nú er að hefjast er gert ráð fyrir íbúafundi þar sem virkjunaráformin verða kynnt, en jafnframt verður reynt að leggja mat á umsvif á rannsóknar og byggingartíma virkjunarinnar.  Það er ljóst að bygging virkjunarinnar getur haft mjög jákvæð áhrif fyrir þjónustuaðila á svæðinu á meðan á framkvæmdum stendur, enda má gera ráð fyrir töluverðum umsvifum þeim tengdum.

Í fréttatilkynningu frá samningsaðilum segir að það sé von þeirra að virkjunin verði lyftistöng, bæði fyrir atvinnulíf og búsetu á svæðinu.

DEILA