Minning: Kjartan Sigurjónsson

Kjartan Sigurjónsson,

f. 27. febrúar 1940 – d. 15. mars 2023.

Unaðarsamlegt er að endurminnast ævistunda við vestanvert Ísafjarðardjúp fáum áratugum fyrir aldamótin síðustu.  Að vísu freyddi aldan köld í faðmi hinna bláu fjalla, en ósjaldan var samt Pollurinn rjómalygn og við Skutulsfjörð verða fallegri kvöldkyrrur með tunglskini en í flestum stöðum öðrum, og má þá einatt heyra tíðan vængjaslátt æðarfuglsins á spegilsléttum haffletinum.

               Það var fagurt mannlíf á Ísafirði í þann tíð.  Heimili heiðurshjónanna Ragnars H. Ragnar og Sigríðar Jónsdóttur í húsinu nr. 5 við Smiðjugötu var  sannkölluð ævintýraveröld.  Þar voru haldnar samæfingar  nemenda og á eftir þágu kennarar dýrlegan beina húsráðenda.  Hugstæð eru kynnin af þeim góðu hjónum og börnum þeirra, að ógleymdum tengdabörnunum.

               Ófátt var líka kirkjutónlistarfólkið á þessum slóðum; úti í Bolungarvík var organisti mætiskonan Sigríður J. Norðkvist, í Hnífsdal Guðrún Eyþórsdóttir, tónskálds á Sauðárkróki Stefánssonar, í Súðavík lék á orgelið Jakob Hallgrímsson, kennara Jakobssonar, og organisti Ísafjarðarkirkju var sjálfur Ragnar H. Ragnar, skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði.

               Ungur lærði Kjartan að syngja á orgel af hinum nafnfræga organista Bergsættarinnar á Stokkseyri, sem undir lokin var orðinn nokkuð fullorðinslegur þegar hann sté um borð í Dómkirkjuorgelið; rak sig þá gjarnan í fótspilið svo það kom djúpur og drynjandi bassatónn, sem fyllti guðshúsið eins og spurning.  Framhaldsnám í organslætti stundaði Kjartan í Hamborg.

Áður en hann fluttist vestur hafði Kjartan verið kennari við héraðsskólann í Reykholti. Þar var þá sóknarprestur síra Einar Guðnason, góðklerkurinnn, sem  hlaut næstflest atkvæði við biskupskjörið í apríl 1959.  Að gamni kváðust þeir Kjartan stundum á, þegar fundum bar saman á kennarastofunni.  Einhverju sinni varð hinum síðarnefnda þessi fyrripartur á munni:

Einar þetta sagði séra

               sólríkan og fagran dag.

Og síra Einar botnaði að bragði:

Tónfræðina tel ég vera

               temmilega göfugt fag.

               Kjartan var búinn næmri spauggreind; var og prýðilega hagmæltur.  Hann hafði gaman af að skipta orðum ankannalega í tvennt innan sömu braglínu.  Kátir piltar við Djúp ortu um Kjartan í þessum gamanstíl hans:

Organistans ferðaflan

frá eg úr hófi keyri.

Veður- Kjar- var tepptur tan,

tafðist Þing- á eyri.

Enn skal dorga í óðarsvelg,

öngvan gorgeir, teitir.

Þenur orgel- bústinn belg

blítt um torg og sveitir.

Kjartan var myndarmaður í sjón og raun.              Svo hávaxinn var hann, að hann gekk löngum álútur, svo sem títt er um viðfelldna og hugþekka menn; þeir koma þannig af innborinni tillátssemi og háttvísi til móts við kæglana.  Samstarf þeirra síra Jakobs Ágústar Hjálmarssonar, sóknarprests á Ísafirði, gekk skafið; þeir voru á einu máli um meginatriði í messuflutningi, helgisiðum og sálmavali.  

               Þegar Ragnar H. Ragnar stóð upp af orgelbekknum í Ísafjarðarkirkju bar sóknarfólkinu saman um að ekki væri á færi neinnar liðleskju að fara í fötin hans. En nú tók Kjartan við af Ragnari og þótti standa sig vel, enda var hann prýðilega slagferðugur organisti; minnisstætt er hversu hann framflutti orgelforleik  Bachs, Christ lag in Todesbanden.  Hann var og liðugur að lesa hljóð af blaði, svo að ekki þurfti einlægt tímafrekan undirbúning, er flytja skyldi hina ýmsu músík við kirkjuathafnir, svo sem brúðkaup og jarðarfarir. Um þessar mundir var  lítillega tekið að móta fyrir því ferli, sem nú hefur náð hámarki með nær algerum útrekstri sálma.  Froðuvæðingin ríkir ein, ofar hverri kröfu.

               Kjartan Sigurjónsson var drengur góður.  Guð blessi minningu hans.  Guð huggi, styðji og styrki Bergljótu, ekkju hans, og ástvini alla.

                                                                                                       Gunnar Björnsson,

                                                                                                       pastor emeritus.

DEILA