Matvælaráðherra leggur fram frv um strandveiðar

Svndís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra lagði í gær fram á Alþingi frumvarp um breytinu á lögum um strandveiðar. Er þar lagt til að tekin verði upp að nýju svæðaskipting strandveiða. Lög um strandveiðar voru sett 2009 og var aflaheimildum skipt niður á fjögur svæði. Tíu árum síðar 2019 var svæðaskiptingin afnumin. Nú er lagt til að hverfa aftur til fyrra horfs.

Í rökstuðningi ráðherra fyrir breytingunum segir :

„Þegar horft er til strandveiðitímabilsins maí‒ágúst er suðvestursvæðið best fyrri hluta tímabilsins meðan
norðaustursvæðið og Austfirðir er best síðari hluta tímabilsins. Komi til þess að strandveiðar séu stöðvaðar bitnar það mest á norðaustur- og austursvæðinu. Það fyrirkomulag sem ákveðið var með gildandi lögum hefur ekki reynst vel þegar litið er til jafnræðissjónarmiða þar sem afnám svæðaskiptingar aflaheimilda við strandveiðar hefur haft neikvæð áhrif á veiðar á Norðaustur- og Austurlandi.“

Fyrirhugað er að skipting aflaheimilda grundvallist á fjölda báta sem skráður er á hvert svæði fyrir sig á hverju ári.
„Þannig verði þeim aflaheimildum sem eru til ráðstöfunar skipt jafnt enda sé jafnræði milli svæða best tryggt á þann máta. Þá verði viðmiðunar- og útreikningsreglur um flutning og ráðstöfun aflaheimilda nánar útfærðar í reglugerð. Með því verði m.a. hægt að bregðast við ef aflaheimildir eru óveiddar í lok tímabils eða fiskveiðiárs.“

Áformin hafa verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og bárust 131 umsögn og segir í greinargerð ráðherra með frumvarpinu að skiptar skoðanir séu um breytinguna. „Rök þeirra sem eru mótfallnir breytingunum snúa m.a. að öryggismálum og að breytingarnar leiði til ólympískra veiða með tilheyrandi áhættu. Rök þeirra sem eru fylgjandi breytingunni snúa m.a. að því að þær séu réttlætismál til þess að tryggja jafnræði milli báta á einstökum svæðum.“

Landssamband smábátaeigenda lagðist í sinni umsögn gegn breytingunum og vill að fest verði í 48 daga lágmark til sóknar fyrir hvern bát. Vill sambandið að skerpt verði verulega á reglum um eignarhald á strandveiðibátum frá því sem nú er, „svo stöðva megi þá óheillavænlegu þróun sem hefur orðið í fjölgun á því að einstaka fyrirtæki geri út marga báta á strandveiði með gervieignaraðild.“

Frá árinu 2010 hafa frá 520 til 760 bátar stundar strandveiðar, langflestir á svonefndu svæði A sem er á vestanverðu landinu og nær m.a. yfir Vestfirði.

DEILA