Krókur: svæðaskipting smábátaveiða eykur slysahættu

Patreksfjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í umsögn strandveiðifélagsins Króks í Barðarstrandarsýslu er andmælt því sem fram kom af hálfu Matvælaráðherra í drögum að lagafrumvarpi um endurupptöku svæðaskiptingar strandveiða smábáta að sú breyting leiði ekki til meiri áhættusækni við veiðar frá því sem nú er. Meira þurfi til að átta ára reynsla strandveiðisjómanna af gamla kerfinu sé ímyndun ein. Minnt á að það varð banaslys einmitt við þessar aðstæður 2016, þ.e. þegar svæðaskipting var við lýði og bátar á svæði A reru í tvísýni veðri vegna yfirvofandi stöðvunar veiða.

Í umsögninni um frumvarp Matvælaráðherra segir að hvati til að róa í víðsjárverðum veðrum hafi nánast horfið eftir að svæðaskipting var afnumin 2018 þar sem fyrirséð hefur verið öll árin í 48 daga kerfinu (fyrst til bráðabirgða 2018), að maí mánuður, júní og júlí hafa verið tryggir og enginn ástæða verið til að róa nema við betri aðstæður.

„Í fjögur af þeim fimm árum sem 48 daga kerfið hefur verið við lýði þá hefur verið fyrirséð að hægt sé að róa alla, og síðar nánast alla þá 12 daga sem ættu að vera í boði og það litla „kapphlaup“ um dagana er í þeim mánuði sem alla jafna besta veðrið er fyrir smábáta. 2022 var nokkuð fyrirséð að það yrðu leyfðir 12 dagar í júlí en síðan voru veiðar stöðvaðar og engar ólympískar veiðar því stundaðar í ágúst (eða 2022 yfir höfuð).

2018 og 2019 = 48 dagar – ekkert svæði missti neinn dag

2020 = 47 dagar – C svæði missti einn dag, og svæði A, B og D misstu þennan eina dag líka

2021 = 46 dagar – C svæði missti tvo daga, og svæði A, B og D misstu þessa tvo daga líka

2022 = 36 dagar – C svæði missti tólf daga, og svæði A, B og D misstu þessa tólf daga líka

Í rökstuðningi Matvælaráðuneytisins fyrir endurupptöku svæðaskiptingar er sérstaklega bent á að svæði C, sem er norðausturhorn landsins, hafi farið illa út úr afnámi svæðaskiptingarinnar og að markmið frumvarpsins sé að jafna aðgengi að strandveiðum eftir landshlutum.

Í umsögn strandveiðifélagsins Króks er þessu andmælt og segir að bátar á svæði C hafi ekki misst róðradaga umfram önnur svæði á þeim tíma sem svæðaskiptingin hafi verið við lýði. Hns vegar hafi bátar á svæði A, þar sem Vestfirðir eru, misst daga umfram svæði C þau ár sem svæðaskiptingin var:

2010 (miðað við svæði C) – 21 dagar
2011 (miðað við svæði C) – 34 dagar
2012 (miðað við svæði C) – 29 dagar
2013 (miðað við svæði C) – 28 dagar
2014 (miðað við svæði C) – 28 dagar
2015 (miðað við svæði C) – 20 dagar
2016 (miðað við svæði C) – 22 dagar
2017 (miðað við svæði C) – 21 dagar

Á myndinni til vinstri er sýndur afli eftir svæðum og til hægri er sýndur fjöldi báta eftir svæðum.

DEILA