Jöfnunarsjóður: tillögurnar hagfelldar Ísafjarðarbæ

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að tillögur um breytta úthlutun fjár úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði til umræðu í bæjarráði Ísafjarðarbæjar á mánudaginn og sveitarfélagið muni skila inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda.

„Tillögurnar eru hagfelldar sveitarfélögum eins og Ísafjarðarbæ, sem eru meðalstór, fjölkjarna og með flóknar útgjaldaþarfir.“ segir Arna Lára.

Samkvæmt drögum að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda munu árleg framlög sjóðsins aukast til Ísafjarðarbæjar og verða 1.004 milljónir króna í stað 832 m.kr. í dag. Er aukningin 171 m.kr. eða 20,6%.

en ekki fyrir Strandabyggð

Sveitarstjórn Strandabyggðar ályktaði eftirfarandi um tilllögurnar á fundi sínum á þriðjudaginn:

„Sveitarstjórn Strandabyggðar lítur þessar tillögur að lagabreytingum mjög alvarlegum augum og ljóst að þær gera minni sveitarfélögum illmögulegt að veita lögbundna þjónustu.“

Samþykkt var að vísa málinu til frekari vinnu innan sveitarstjórnar.

Framlög til Strandabyggðar munu lækka um 73 m.kr. og verðs 124 mkr. í stað 198 m.kr. sem er 37% skerðing. Þorgeir pálsson, oddviti segir  það ljóst að sveitarfélagið getir ekki tekið þá skerðingu á sig, að öllu óbreyttu.

DEILA