Ísafjarðarbær: sagt upp samningi um styrk til flugáhugamanna á Ísafirði

Ísafjarðarflugvöllur. Mynd: Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að segja upp samningi frá 1996 við félag flugáhugamanna á Ísafirði um árlegan styrk jafnháum álögðum fasteignagjöldum á flugskýli félagsins. Fasteignagjöld ársins 2023 eru kr. 188.760.

Samkvæmt samningnum tók félag flugáhugamanna að sér gegn styrkveitingunni að annast ýmis atriði í uppákomum á vegum bæjarins sem kröfðust notkunar á lítilli flugvél.

Í minnisblaði Bryndísar Óskar Jónsdóttur, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, sem lagt var fyrir bæjarráð, segir að „síðustu misseri hefur komið upp nokkur umræða og óánægja með notkun lítilla flugvéla hjá Ísafjarðarbæ á bæjarhátíðum, s.s. skíðavikuviðburðum og 17. júní, þegar litlum karamellum er dreift úr vélinni yfir hóp fólks og barna.“

Nefnt er að oft eru veðurskilyrði ekki nægilega góð, og því hafir þurft með skömmum fyrirvara að breyta tímasetningu karamelluregnsins eða hætta við það, með tilheyrandi óánægju smáfólksins. Einnig kemur fram að horft sé til þeirrar hættu sem stafar af athæfinu, þ.e. að fljúga lítilli flugvél lágt yfir byggð og mannafjölda auk umhverfissjónarmiða varðandi óþarfa útblástur og mengun.

Þá kemur fram í minnisblaðinu að starfsmenn Ísafjarðarbæjar hafi kannað aðrar lausnir með karamelluregnið og að horft hafi verið til „lítilla áhalda svipaðra „confettisprengja“, og er til skoðunar að kaupa þess háttar „byssu“, leigja hana eða láta smíða sérstaklega, ef kostnaður fer ekki úr hófi fram.“

DEILA