Ísafjarðarbær: greiðir bætur til Þrúðheima ehf

Kynnt var í bæjarráði í gær  samkomulag um greiðslu bóta, milli Ísafjarðarbæjar og Þrúðheima ehf., vegna kæru Þrúðheima ehf. til innviðaráðuneytisins um að málsmeðferð Ísafjarðarbæjar um töku ákvörðunar um að samþykkja samning um greiðslu líkamsræktarstyrks árið 2020 hafi gengið gegn stjórnsýslureglum. Samkomulagið er trúnaðarmál segir í fundargerð bæjarráðs.

Innviðaráðherra úrskurðaði þann 23. júní 2022 sem ólögmæta styrkveitingu Ísafjarðarbæjar til Ísófit ehf. Segir í úrskurðinum að ákvörðun Ísafjarðarbæjar hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga um jafnræðisreglu, rannsóknarreglu og lögmætisreglu.

Ísafjarðarbær hafði í september 2020 gert samning við Ísófit ehf um mánaðarlegan styrk 420 þús kr til þriggja ára til þess að reka líkamsræktarstöð. Líkamsræktarstöðin er til húsa í gömlu mjólkurstöðinni, Sindragötu 2. Samninginn undirrituðu Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og Andrea Gylfadóttir, Ingibjörg Elín Magnúsdóttir og Heba Dís Þrastardóttir fyrir hönd Ísófit. 

Ráðuneytið lítur svo á að styrkveitingin falli undir eftirlitshlutverk þess skv 109. grein sveitarstjórnarlaga og sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun þar sem styrkurinn sé án móframlags. Rekstur líkamsræktarstöðva sé ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga en þeim sé heimilt að beita sér á því sviði og gæta verður þá að meginreglunni um forsvaranlega meðferð fjármuna. Fundið er að því að Ísafjarðarbær hafi breytt markmiðum sínum eftir fyrstu tillögur og að Ísófit hafi á síðari stigum lagt fram frekari gögn án þess að Þrúðheimum ehf hafi verið gefinn kostur á því sama. Umsóknirnar hafi því ekki verið metnar á jafnréttisgrundvelli.

Í byrjun árs sagði Karen Gísladóttir forsvarsmaður Þrúðheima ehf, sem kærðu til Innanríkisráðuneytisins samning Ísafjarðarbæjar við Ísófit ehf, í viðtali við Bæjarins besta að hún hafi í haust hitt Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra og það hafi verið ágætur fundur. Kvaðst hún vongóð um að málið leysist á næstu vikum en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um efni viðræðnanna.

DEILA