Ísafjarðarbær: efasemdir um þörf fyrir grenjavinnslu og minkaveiðar

Tófa. Mynd: Rúnar Óli Karlsson.

Í minnisblaði verkefnastjóra á umhverfis- og eignasviði Ísafjarðarbæjar sem lagt var fyrir umhverfiis- og framkvæmdanend í síðustu viku eru settar fram efasemdir um grenjavinnslu og minkaveiðar. Þar segir: „Í ljósi þess að upplýsingar um tjón af völdum refa og minka eru svo takmarkaðar sem raun ber vitni, má færa rök fyrir því að ekki sé hægt að sýna fram á þörf á veiðum í sveitarfélaginu að svo stöddu, enda verður sönnunarbyrðinni varla snúið við. Án vitneskju um hið raunverulega tjón sem dýrin valda og hversu skilvirkt núverandi fyrirkomulag er við að lágmarka tjón af völdum refa og minka, er ógjörningur að ákvarða fjármagn í málaflokkinn.“

Ísafjarðarbær greiðir ríflega þrjár milljónir króna á ári í refa- og minkaeyðingu samkvæmt samningum við Félag refa- og minkaveiðimanna og Búnaðarfélagið Bjarma. Samningarnir eru gerðir til eins árs í senn.

Samþykktir Ísafjarðarbæjar um greiðslur til refa- og minkaveiðimanna byggja á ályktunum þáverandi landbúnaðarnefndar frá árinu 1997. Ekki verður séð, segir í minnisblaðinu, að á þessum 25 árum hafi verið farið ofan í saumana á framkvæmd og markmiðum refa- og minkaveiði. Fyrrnefnd ályktun landbúnaðarnefndar er sögð um margt óljós um annað en hreinar og beinar greiðslur til veiðimanna.

Verkefnisstjórinn telur að skilgreina verði betur hver markmið veiðanna eru og hvernig þeim markmiðum verði best náð. „Það verður tæplegast gert nema með því að gera sér grein fyrir því tjóni sem refir og minkar valda og meta það til fjár þegar því verður komið við. Einnig væri mikilsvert að átta sig á hvenær tjónið er á almennum gæðum/verðmætum sem falla undir verndarvæng hins opinbera og hvenær og í hversu miklum mæli tjón verður á eigum/verðmætum einkaaðila þar sem erfiðara er að sjá sveitarfélagið beri ábyrgð á. Þarna má nefna sem dæmi tjón á bústofni og tjón á æðarvörpum einkaaðila í rekstri.“

Um refa- og minkaveiðar gildir reglugerð frá 1995. Þar er veiðistjóra falið að stunda hagnýtar rannsóknir í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, aðrar stofnanir eða einstaklinga eftir því sem þörf krefur. Niðurstöður rannsókna skulu birtar opinberlega og lagðar til grundvallar aðgerðum til að draga úr tjóni af völdum refa og minka.

Rannsóknum er mjög ábótavant og í mars 2020 telur Umhverfisstofnun í áætlun um refaveiðar 2020-2022 að fyrirliggjandi upplýsingar séu svo takmarkaðar, sérstaklega er varða tjón af völdum refa, að ekki sé unnt að leggja fram tillögur að tilhögun refaveiða og ráðstöfun fjármagns til lengri tíma en þriggja ára. Í skýrslunni kemur einnig fram að skráning af tjóni af völdum refs sé lítil og að Umhverfisstofnun barst engin skráning beint frá bændum en örfáar tilkynningar bárust vegna tjóns í æðarvarpi.

Í fyrrnefndri reglugerð frá 1995 segir að sveitarstjórn sé skylt að ráða skotmenn til grenjavinnslu og minkaveiða árlega þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum veiðistjóra, að veiðar séu nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum refa og minka.

Í Ísafjarðarbæ eru veiðar óheimilar í Hornstrandafriðlandinu og náttúruvættinu Dynjandi í Arnarfirði.

Nefndin fól starfsmanni nefndarinnar að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum og leggja tillögur um tilhögun refa- minkaveiða fram á næsta fundi nefndarinnar með það fyrir augum að stefna að markvissari veiðum í sveitarfélaginu.

DEILA