Háafell: fóðurprammi fær rafmagn úr landi

Pramminn Ögurnes. Mynd: Háafell.

Á miðvikudaginn var fóðurpramminn Ögurnes, sem er við kvíar Háafells í Vigurál keyrður að öllu leyti á rafmagni frá landi og því hefur verið slökkt á ljósavélunum um borð sem munu nú aðeins þjóna sem varaafl. Frá því sjóstrengurinn var lagður í desember hefur Orkubú Vestfjarða unnið að því að klára frágang á spenni í landi og undanfarnar vikur hefur verið unnið með prófanir. Allt hefur virkað vel og því var það langþráð stund þegar slökkt var á vélunum. segir í frétt um málið frá Háafell.

Þar segir að Háafell sé stolt af því að vera með fyrsta fóðurprammann á Vestfjörðum sem knúinn er grænni orku úr landi. „Almennt er kolefnisfótspor úr fiskeldi lágt en með aðgerðum sem þessum drögum við ennfrekar úr því og mun Háafell halda áfram að minnka það með frekari aðgerðum. Áætlað er að með þessari aðgerð sé um að ræða minnkun um rúmlega 100.000 lítra af olíu á ári. Enn önnur jákvæð hliðarafurð er að hljóðmengun minnkar þegar vélarnar eru ekki í gangi.“

Þeir aðilar sem hafa komið að verkefninu eru Blámi, Orkubú Vestfjarða, Sjótækni, EFLA, Akva group og Rafskaut ehf.

DEILA