Eftirlisnefnd með fjármál sveitarfélaga gerir athugasemd við fjárhagsstöðu Ísafjarðarbæjar

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, EFS, hefur ritað bréf til Ísafjarðarbæjar eftir að hafa yfirfarið fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir 2023 og segir nefndin að sveitarfélagið uppfylli ekki öll lágmarksviðmið eftirlitsnefndar fyrir A-hluta. Nefndin tekur til skoðunar rekstrarniðurstöðu, framlegð og veltufé frá rekstri fyrir sveitarfélagið samkvæmt fjárhagsáætlun 2023 og ber saman við lágmarksviðmiði EFS miðað við nettó skuldir í hlutfalli við tekjur.

Gerir EFS athugasemd við framlegð A hluta 8,2% sem sé undir lágmarksviðmiði nefndarinnar 11%. Í bráðbirgðaákvæði VII í sveitarstjórnarlögum er sveitarstjórn heimilt að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu og skuldareglu út árið 2025 en EFS bendir sveitarstjórn á að árið 2026 þurfi að uppfylla framangreind skilyrði. Eftirlitsnefndin leggur áherslu á það við sveitarstjórn að nauðsynlegt sé að fara vel yfir fjárhagslegar forsendur sveitarfélagsins til að ná framangreindum lágmarksviðmiðum.

Í minnisblaði sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Ísafjarðarbæjar er gerður ágreiningur um útreikning á nettóskuldahlutfalli og segir þar að samkvæmt útreikningum með samþykktri áætlun reiknist nettóskuldir A-hluta vera 106,6% og því framlegðarhlutfallið í fjárhagsáætluninni 8,2% hærra en lágmarksviðmið EFS sem væri 6,6%. Þá sé samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árin 2023-2026 gert ráð fyrir að þau fjárhagslegu skilyrði sem sveitarfélögum eru sett lögum samkvæmt, verði uppfyllt í lok áætlunartímabilsins árið 2026.

Bæjarráðið brást við erindi EFS með sérstakri bókun: „Í bréfinu er fjallað um almenn viðmið eftirlitsnefndar en ekki skilgreinda mælikvarða samkvæmt sveitarstjórnarlögum og reglugerðum. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur sett sér fjárhagsleg markmið sem unnið er eftir. Samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar er gert ráð fyrir að skilyrði um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga, eins og þau er skilgreind í lögum og reglugerðum, verði uppfyllt við lok áætlunartímabilsins árið 2026.“

DEILA