Dagur Norðurlanda 23. mars

Fátt er okkar fámennu þjóð eins mikilvægt og traust og góð tengsl við aðrar þjóðir. Þótt Ísland sé afskekkt í hefðbundinni merkingu þess orðs, ekki síst Vestfirðir, eigum við engu að síður til mikilla vina að telja þar sem eru íbúar hinna Norðurlandanna; Álandseyja, Grænlands, Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Noregs og Svíþjóðar. Nú nýlega höfum við verið minnt óþyrmilega á hversu þýðingarmikil vinátta þjóða og traust samskipti geta verið, þegar eitt ríki Evrópu, sem á landamæri að tveimur Norðulandanna, hefur farið með ófriði gegn annarri nágrannaþjóð sinni, nokkru sunnar, ófriði sem enn stendur og óvíst er hvernig lyktar.

Það er vinna að eiga vini hefur stundum verið sagt, vinskap þarf að rækta og stöðugt ræktunarstarf að vera í gangi ef vel á að vera. Einhverjum kann að finnast samskipti Norðurlandaþjóðanna nú um stundir fjarlæg og formleg og einkum fara fram á vettvangi opinberra aðila, stjórnmálamanna og embættismanna, með lokuðum funda- og veisluhöldum og jafnvel að komin sé í þau nokkur þreyta, en minna fari fyrir skipulögðum samskiptum almennra borgara þjóðanna. Vonandi að þetta sé ekki rétt mat en sé það svo þarf að bæta þar úr.

23. mars

Því er 23. mars helgaður Norðurlöndum að á þessum degi að árið 1962 hittust fulltrúar ríkisstjórna Norðurlandanna í Helsinki og staðfestu samning um náið og skuldbindandi samstarf þjóðanna á fjölmörgum sviðum. Samningurinn, sem nefndur er Helsinkisáttmálinn, fjallar um samstarf landanna á sviði réttarfars, menningarmála, félagsmála, efnahagsmála, samgangna og umhverfisverndar. Þá er þar kveðið á um fjölmörg gagnkvæm réttindi Norðurlandabúa sem við tökum nú sem sjálfsöguðum hlut við dvöl innan Norðurlandanna og í ferðum eða viðskiptum milli landanna. Í sáttmálanum segir m.a. að við setningu laga skuli ríkisborgarar annarra Norðurlanda njóta sama réttar og ríkisborgarar viðkomandi lands. Er án efa um einstakt samstarf að ræða á heimsvísu milli svo margra sjálfstæðra þjóða, svo eftir hefur verið tekið.  


Norræna félagið

Á vef Norræna félagsins www.norden.is segir: „Norræna félagið er gamalgróið félag sem starfar óháð flokkspólitík. Félög um norræna samvinnu voru fyrst stofnuð árið 1919 í Danmörku, Noregi og Svíðþjóð, og árið 1922 á Íslandi.

Hlutverk Norræna félagsins er að efla norrænt samstarf, auka hreyfanleika á Norðurlöndunum og auka skilning á menningu, tungumálum og samfélögum Norðurlandanna. Þetta er gert með því að skapa tengsl milli einstaklinga, fjölskyldna, menntastofnana, bæjarfélaga og fyrirtækja á Norðurlöndunum. Hið fasta leiðarljós Norræna félagsins á Íslandi er að efla samstarf og vináttutengsl Íslendinga og annarra Norðurlandabúa.“

Í Norræna félaginu eru 16 deildir, er ein á Ísafirði og önnur á Patreksfirði. Skrifstofa félagsins er við Óðinstorg í Reykjavík.

Í tilefni dagsins verða fánar Norðurlandaþjóðanna átta dregnir að húni sjávarmegin við Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði á vegum félagsins. Þó að ekkert skuli um það fullyrt er líklega nokkuð langt um liðið síðan fánar allra Norðurlandaþjóðanna átta sáust saman á opinberum vettvangi í höfuðstað Vestfjarða og því eflaust kominn tími til. Vonandi gleður þetta einhverja og minnir á þennan góða félagsskap sem Íslendingar eru í, jafnt Vestfirðingar sem aðrir, á þeim róstusömu tímum sem við nú lifum. 

Samvera í Dokkunni

Ekki hefur farið mikið fyrir starfi Ísafjarðardeild Norræna félagsins síðustu ár. Í tilefni dagsins hefur þó auk þess að draga fána að húni verið ákveðið að hafa samverustund á léttum nótum í veitingahúsinu Dokkunni, Sindragötu 14, Ísafirði, á þessum degi, sem ber upp á fimmtudag, milli kl. 17:30 og 18:30 eða þar um bil. Allir eru velkomnir, Norðurlandabúar sem aðrir. Dagskrá er í mótun en gera má ráð fyrir einhverjum ræðuhöldum um fjarfund frá samkomu Norræna félagsins í Norræna húsinu í Reykjavík, leikin verður tónlist eftir norræna höfunda með textum sem verða  eingöngu á málum Norðurlandaþjóðanna og málin rædd í góðra vina hópi – á þeim tungumálum sem best henta. Ánægjulegt væri að sjá sem flesta velunnara norræns samstarfs og aðra sem áhuga hafa.

Jónas B. Guðmundsson,
formaður félagsdeildar Norræna félagins á Ísafirði

DEILA