Boston skýrslan: náttúrulegar aðstæður á Íslandi eru hagstæðar til sjókvíaeldis

Kvíar Arctic Fish í Dýrafirði.

Í skýrslu Boston Consulting group sem kynnt var á þriðjudaginn segir um sjókvíaeldi að náttúrulegar aðstæður á Íslandi eru hagstæðar til sjókvíaeldis. Gert er ráð fyrir að Ísland geti nær tvöfaldað framleiðslu í sjókvíaeldi innan núverandi regluverks. Frekari vöxtur væri studdur með því að styrkja regluverk og auka umfang aðfangakeðjunnar. Það er ólíkt öðrum helstu laxeldislöndum, segir í skýrslunni, þar sem framtíðarvöxtur í sjókvíaeldi takmarkast af náttúrulegum aðstæðum og verður því fyrst og fremst knúinn af tækni sem eykur skilvirkni.

Þá segir í skýrslunni að hraður vöxtur í laxeldi á Ísland hafi verið drifinn af einkafjárfestingu, sem sýni að fjárfestar
telji Ísland vera aðlaðandi fyrir laxeldi í sjókvíum. „Opið sjókvíaeldi á Íslandi glímir við umhverfislegar áskoranir og að óbreyttu er ólíklegt að íslenskt laxeldi í sjókvíum geti vaxið umfram ofangreint. Aftur á móti eru til tæknilegar lausnir sem gætu dregið úr umhverfisáhrifum og/eða aukið framleiðslugetu, t.d. lokaðar og hálflokaðar sjókvíar og ófrjóir
laxar. Einnig geta aðferðir eins og útsetning stærri seiða, bættar sjúkdómavarnir og aukin nýting stafrænnar tækni aukið skilvirkni í rekstri og aukið framleiðslumagn. Verðmætasköpun tengd sjókvíaeldi getur einnig verið aukin með eflingu virðiskeðjunnar t.d. fóðurframleiðslu og meiri vinnslu á afla.“

Laxeldi í sjó hefur vaxið um 35% að meðaltali á ári síðan 2016 og var framleiðslan á síðasta ári um 43 þúsund tonn. Í svokallarði grunnsviðsmynd skýrslunnar, sem höfundar telja líklegustu framvinduna næstu 10 árin er talið að sjókvíaeldið skili árið 2032 146 þúsund tonna framleiðslu og verði því um 100 þúsund tonnum meira en það var í fyrra. Þá er spáð að landeldið muni þá gefa 75 þúsund tonna framleiðslu.

5000 ný störf

Skýrsluhöfunar telja að gangi þessi grunnsviðsmynd eftir muni það skila um 5000 nýjum störfum, beinum og óbeinum. Skattar og gjöld til hins opinbera muni aukast um nærri 40 milljarða króna á ári og söluverðmæti eldisafurðanna verði 200 milljörðum króna meira árið 2032 en það var í fyrra.

Framleiðsluaðferðir arðbærar í sjókvíaeldi

Um sjókvíaeldið almennt segir: „Framleiðsluaðferðir í sjókvíaeldi hafa þróast talsvert á undangengnum áratugum og almennt verið arðbærar þegar framleiðsla hefur náð ákveðinni stærð. Rekstrarforsendur eru því nokkuð vel kunnar og möguleikar til verðmætasköpunar á grundvelli framleiðsluferlanna sjálfra nokkuð þekktir. Helstu óvissu- og áhættuþættir snúa því að regluverki og umhverfislegum áskorunum.“

DEILA