Bolungavík: róttækar hugmyndir um miðbæjarskipulag

Við höfnina, götuna Árbæjarkant hefur verið teiknað hótel. Þar eru nú Vélvirkinn og Fiskmarkaður Bolungavíkur.

Arkitektastofan Sel hefur lagt fram til kynningar hugmyndir að miðbæjarskipulagi fyrir Bolungavík sem nefnist endurnýjuð framtíðarsýn. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að um sé að ræða hugmyndir á vinnslustigi sem eru nú til umræðu innan bæjarkerfisins. Jón Páll segir að hugmyndirnar verði kynntar almenningi á íbúafundum í vor. Hann leggur áherslu á að Bolungavík sé að stækka og breytast og að framundan sé mikið breytingaskeið. Mikil þörf sé á nýbyggingum og íbúafjölgun fyrirsjáanleg. Því sé rétti tíminn til þess að varpa fram róttækum hugmyndum og ræða þær. Í þessum hugmyndum er gert ráð fyrir íbúðabyggingum og fjölgun íbúa á þessu svæði auk atvinnuhúsnæðis eins og hóteli.

Svæðið sem er undir í þessum drögum afmarkast eins og myndin sýnir:

Hér er Hafnargatan sýnd sem göngugata. Íshúsið blasir við á hægri hönd og gegnt því hefur gamla hótel Búðanes verið endurreist.
Við Aðalstrætið hefur verið teiknað mikið íbúðahús, sem er byggt í stíl Fjórubúða, sem stóðu við Hafnargötuna, neðan og innan til við verslunarhús Einars Guðfinnssonar hf.
Hér hefur verið búið til torg, Lækjartorg, sem er svæðið milli Olisverslunarhússins og Fiskverkunar Guðmundar Rósmundarson, ofan við Lækjarbryggjuna.

DEILA