Óbyggðanefnd: ríkið fellur frá þjóðlendukröfu í Furufjörð

Bænhús í Furufirði.

Ríkið hefur með bréfi dags 23. janúar sl til Óbyggðanefndar gert breytingar á kröfugerð sinni um þjóðlendur á Vestfjörðum. Meðal breytingar er að ríkið fellur frá kröfu sinni um að Furufjörður verði úrskurðaður þjóðlenda. Fallist er á að landamerkjabréf lýsi merkjum jarðarinnar á móts við Þaralátursfjörð eftir vatnaskilum. Varðandi Reykjafjörð viðurkennir ríkið eignarrétt og segir hann óumdeildan og að svo virðist sem jörðin hafi ekki farið í eyði. Merkjum jarðarinnar inn til landsins sé hins vegar ekki lýst í landamerkjabréfi. Vísar ríkið til þess að í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1754 komi fram að einungis 1 míla sé frá ströndinni að jökulsporði. Telur því ríkið að eignarréttur Reykjafjarðar takmarkist við láglendi og svæði við sjávarströndina. Þá telur ríkið að jörðin Kirkjuból, Knyttisstaðir og Sæból í Reykjafirði hafi farið í eyði og eignarréttur fallið niður.

Þá hefur ríkið fallið frá því að Horn að frátöldu Hornbjargi verði þjóðlenda. Er breytingin byggð á landamerkjabréfi Horns í Hornvík sem lagt var fram við aðalmeðferð málsins.

Loks kemur fram í bréfinu að ríkið hafi fallið frá því að Hjarðardalur verði þjóðlenda. Er fallið á sjónarmið landeigenda að Hjarðardalur sé í sameign Ytri og Innri Hjarðardals.

DEILA