Björgunarsveitir kallaðar út á Dynjandisheiði

Í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, voru björgunarsveitir frá Þingeyri, Flateyri og Ísafirði kallaðar út til aðstoðar fólks á Dynjandisheiði. Þar var skollinn á þreifandi bylur og skyggni lítið sem ekkert.

Björgunarsveitarfólk fetaði sig upp á heiðina og upp úr klukkan 23 var komið að bílunum. Þarna voru á ferð starfsmenn verktaka sem voru á leið í vinnubúiðir við Mjólkárvirkjun og ferðamenn, ásamt moksturstæki.

Fólkið var flutt í bíla björgunarsveita og um hálf tólf var haldið af stað niður af heiðinni.

Ferðin gekk hægt, aðstæður mjög krefjandi þreifandi bylur og sama sem ekkert skyggni og bílalestin mjakaðist metra og metra í einu.

Seint í nótt kom svo hópurinn niður af heiðinni, starfsmenn verktakans komust í hús við Mjólká, en 3 farþegar fengu far með björgunarsveit inn á Þingeyri, þar sem þeim var útveguð gisting. Samtals voru þetta 12 einstaklingar sem voru aðstoðaðir niður af Dynjandisheiði.

Aðgerðum lauk rétt fyrir klukkan 4 í nótt.

Myndir: Landsbjörg.

DEILA