Arnarlax hefur sótt um samþykki bæjaryfirvalda í Vesturbyggð fyrir breytinu á húsnæði í eigu félagsins á Patreksfirði.
Húsið er byggt árið 1976 sem fiskvinnsluhús. Útveggir og plötur eru steinsteyptar og þakið járnklætt timburþak. Húsið var á tímabili nýtt sem sláturhús fyrir Fjarðarlax með starfsmannaaðstöðu í hluta efri hæðar en eftir að Arnalax eignaðist húsið hefur það verið nýtt sem fóðurgeymsla.
Á efri hæð, (þakhæð), verða innréttaðar skrifstofur fyrir Arnarlax, annarsvegar fyrir sjódeildir og hinsvegar fyrir fjámáladeild með tilheyrandi aðstöðu starfsfólks. Tvær aðkomur verða upp á hæðina, annarsvegar sú sem fyrir er og hinsvegar um utanáliggjandi stáltröppu í innri enda. Sex kvistir verða byggðir á þakhæðinni, þrír á hvorri hlið.
Á neðri hæð verða innréttaðar tvær búningsaðstöður fyrir sjódeildir, önnur þeirra byggð að hluta á aðstöðu sem fyrir er, en hin ný.
Brúttóflötur er 1.197,5 fermetrar. Brúttórúmmál er 4.248,5 rúmmetrar. Lóð er 600 fermetrar.
Skipulags- og umhverfisráð hefur samþykkt áformin fyrir sitt leyti og hafna- og atvinnumálaráð samþykkti áformin á fundi sínum í síðustu viku.
Valdimar B. Ottósson vék af fundi við afgreiðslu málsins, en hann er starfsmaður Arnarlax.
