Arnarlax: 199 starfsmenn og 2,5 milljarðar kr. í launakostnað

Í skýrslu PWC um samfélagsspor Arnarlax fyrir árið 2022 kemur fram að í lok ársins hafi verið 199 starfsmenn hjá Arnarlaxi og að launakostnaður fyrirtækisins hafi verið 2,5 milljarður króna á árinu. Starfssvæði Arnarlax er Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ölfus og Grímsnes- og Grafningshreppur.

Sé aðeins litið til Vestfjarða voru 132 starfsmenn í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi eða 66% starfsmanna. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var meðaltal áætlaðs vinnuafls í sveitarfélögum á sunnanverðum Vestfjörðum, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi, um 817 á árinu 2022 og hafði þá aukist um 7% frá meðaltali ársins 2021. Um 16% af áætluðu vinnuafli sveitarfélaganna tveggja starfaði hjá Arnarlaxi á árinu 2022.

Launakostnaður Arnarlax vegna starfsmanna á starfssvæði sínu var 1.852 m.kr. sem gerir 14 m.kr. á hvert starf yfir árið eða nærri 1,2 mkr. á mánuði. Ætla má út frá þessum tölum PWC að meðallaunin hafi verið um 940 þúsund krónur á mánuði þegar launatengdu gjöldin hafa verið dregin frá launakostnaði.

Úr skýrslu PWC um samfélagsspor Arnarlax 2022.

Samkvæmt þessari glæru er verðmætasköpunin á Íslandi um 6,6 milljarðar króna á síðasta ári, þar af um 2,8 milljarðar króna á starfssvæði Arnarlax. Munurinn liggur að mestu leyti í þjónustukaupum af innlendum aðilum utan starfssvæðis Arnarlax.

1.322 m.kr. í skatta og gjöld – tekjuskattur af hagnaði

Sundurliðunin á sköttum og gjöldum ársins, sem voru 1.322 m.kr. er sýnd á myndinni að neðan. Greiddir verða 810 m.kr. í skatta og gjöld fyrirtækisins og auk þess 512 m.kr. skilað í sköttum starfsmanna. Hagnaður varð af rekstri Arnarlax á síðasta ári og mun fyrirtækið greiða 149 mkr. í tekjuskatt af honum á þessu ári. Þá eru greiddar 102 m.kr. í fiskeldisgjald til ríkisins sem heitir auðlindagjald í skýrslu PWC. Aflagjöld til sveitarfélaga voru 163 m.kr. og nærri tvöfölduðust milli ára. Gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis nam 82 m.kr.

DEILA