Arctic Fish: hagnaður 884 m.kr. í fyrra

Í tilkynningu frá Arctic Fish um ársskýrslu síðasta árs segir að árið 2022 hafi verið viðburðarríkt  eins og fyrri ár, enda félagið enn á vaxtarskeiði og mikið um fjárfestingar.  Fjárfest var í stækkun á seiðaeldisstöð félagsins á Tálknafirði og í eigin vinnsluhúsi í Bolungarvík.  Selt magn var 8,6 þúsund tonn en sláturmagn hafði minnkað milli ára vegna áfalla sem félagið lenti í snemma á árinu 2022.  Áföllin má að mörgu leyti rekja til skorts á innviðum félagsins til að taka lax sem var kominn í markaðsstærð í gegnum eigið vinnsluhúsnæði.  Fjárfestingar ársins miðuð því að mörgu leyti að takmarka áhættu og auka framleiðni t.a.m. með fjárfestingunni í vinnslunni.  Á árinu voru svo sviptingar með eignarhald félagsins.  Síldarvinnslan tryggði sér 34,2% eignarhlut í félaginu og segir að mikilvægt hafi verið fyrir félagið að fá inn svo sterkan innlendan fjárfesti í eigendahópinn. Í lok árs þá keypti MOWI, stærsta laxeldisfélag í heimi, 51,3 % hlut í félaginu.  Það er mikilvægt fyrir félagið og framtíð þess að vera með svo sterka eigendur.

Meðalverð 986 kr/kg

Heildartekjur félagsins á árinu námu 8,4 milljörðum króna, en meðalverð á hvert selt kíló af laxi var 986 krónur. Framleiðslukostnaður hvers selds kíló var 692 krónur ‏‏nam því rekstrarframlegð á hvert kíló rúmar 293 krónur. Afkoma ársins í heild sinni nam 884 milljónum króna. Í árslok störfuðu 71 starfsmenn hjá fyrirtækinu víðs vegar um Vestfirði. 

Félagið fjárfesti einnig mikið í sínum vaxtarverkefnum, en heildarfjárfestingar á árinu námu 6,5 milljörðum króna. Vaxtaberandi skuldir í lok árs standa í rúmum 12 milljörðum króna og þá eru heildar eignir félagsins rúmir 30 milljarðar króna.

Framtíðin hjá félaginu einkennist af áframhaldandi fjárfestingum og framleiðsluvexti og stefnir félagið á 25 þúsund tonna sölu á laxi á næstu 3-4 árum.

DEILA