Vesturbyggð: vilja ofanflóðavakt á Raknadalshlíð

Staparnir á Raknadalshlíð. Mynd: Rannveig Haraldsdóttir.

Bæjarráð Vesturbyggðar ræddi í vikunni öryggismál vegfarenda á Raknadalshlíð og Kleifarheiði. Raknadalshlíð er norðan megin i Patreksfirðinum frá Kleifaheiðinni og út að byggðinni á Patreksfirði. Vekur bæjarráðið athygli á því að á Raknadalshlíðinni er mikil snjóflóðahætta, en undir hlíðinni keyrir m.a. skólabíll alla virka daga með börn á leið í Patreksskóla. Hlíðin er ekki vöktuð hjá ofanflóðavakt Veðurstofu og litlar eða engar varnir á því að snjóflóð falli á veginn. Eins er fjarskiptasamband á Raknadalshlíðinni mjög stopult.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að óska eftir því við Veðurstofuna að Raknadalshlíð verði vöktuð hjá ofanflóðavakt. Að leitað verði eftir því við Vegagerðina að fundin verði leið til að verja vegfarendur sem aka undir hlíðinni og að skoðað verði nýtt vegstæði, auk þess að leita leiða til að fjarskiptasamband á sunnanverðum Vestfjörðum, þar með á Raknadalshlíðinni verði ásættanlegt.

DEILA