Vesturbyggð: 3,9 m.kr. til dagforeldra

Frá Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur gert breytingu á fjárhagsáætlun ársins og hækkað um 3,9 m.kr.  kostnað við aðstöðu fyrir dagforeldra á Patreksfirði ásamt kostnaðar til að tryggja dagforeldri lágmarkstekjur óháð fjölda barna. Launakostnaður á Arakletti var lækkaður á móti um sömu fjárhæð þar sem ekki þarf að ráða inn viðbótarstarfsfólk fyrr en seinna á árinu en áætlun gerði ráð fyrir að það yrði gert í upphafi árs.

Samkvæmt upplýsingum frá Vesturbyggð er gert ráð fyrir lámarkslaunum fyrir viðkomandi  dagforeldri skv. reiknaðs endurgjalds í flokki E(4) óháð fjölda barna og aðstöðusköpun. Niðurgreiðslur sveitarfélagsins fyrir foreldra í sambúð/hjónabandi 50.538 kr á mánuði fyrir 8 klst. vistun og 71.402 kr. fyrir einstæða foreldra, öryrkja og foreldra þar sem báðir eru í námi. Niðurgreiðslurnar eru svo hlutfallslegar fyrir 6 klst og 4 klst vistun.

Í reglum Vesturbyggðar um leyfisveitingu til daggæslu barna á Patreksfirði segir að Vesturbyggð leggi dagforeldri til húsnæði þeim að kostnaðarlausu og auk þess húsgögn og annað sem til er og getur nýst dagforeldri í starfi sínu.

DEILA