Vestfirðir: helmingur getur ekki hugsað sér að sækja vinnu út fyrir eigið byggðarlag

Nærri helmingur svarenda í könnun Vestfjarðastofu um samgöngur á Vestfjörðum er ósammála því að geta hugsað sér að sækja vinnu út fyrir sitt byggðarlag. Alls voru 49% ósammála og aðeins 28% sammála. Þetta endurspeglar viðhorf Vestfirðinga til samgangna í fjórðungnum sem er að mikið vanti upp á að þær séu fullnægjandi.

Þegar svörin eru brotin upp eftir svæðum sker eitt þeirra sig úr. Á norðanverðum Vestfjörðum utan Ísafjarðar er nærri helmingur sem getur hugsað sér að sækja vinnu út fyrir sitt byggðarlag eða 47%. Er þetta langhæsta hlutfallið á Vestfjörðum. Á sunnanverðum Vestfjörðum er hlutfallið 15% og 24% á Reykhólum og í Strandasýslu. Athyglisvert er að á Ísafirði er hlutfallið aðeins 24%.

Á norðanverðum Vestfjörðum skiptir því í tvö horn eftir því hvort svaradi býr á Ísafirði eða utan Ísafjarðar. Aðeins fjórðungur íbúa á Ísafirði getur hugsað sér að sækja vinnu út fyrir Ísafjörð en um helmingur þeirra sem búa utan Ísafjarðar.

Þegar svörin eru skoðuð út frá hinni nálguninni, þ.e. þeir sem eru ósammála því að geta hugsað sér að sækja vinnu út fyrir eigið byggðarlag þá á það við um 62% svarenda á sunnanverðum Vestfjörðum, 60% á Reykhólum og í Strandasýslu og 51% á Ísafirði. En aðeins 29% þeirra sem búa á norðanverðum Vestfjörðum utan Ísafjarðar eru ósammála þessu, þ.e. geta ekki hugsað sér að vinna utan byggðarlags sem þeir búa í.

Könnun fór fram frá september til nóvember 2022. Bréf voru upphaflega send á 4953 íbúa með lögheimili á Vestfjörðum og alls bárust 525 svör, svarhlutfall var því 10,6%.

DEILA