Veiðifélag Laxár í Hvammssveit: ársreikningar og arðskrá ekki tiltæk

Laxá í Hvammssveit. Mynd af veidiheimar.is.

Ársreikningar veiðifélags Laxár í Hvammssveit eru ekki aðgengilegir hjá ársreikningaskrá Ríkisskattstjóra og Fiskistofa hefur þá ekki heldur. Þá hefur Fiskistofa ekki fengið arðskrá félagsins til staðfestingar. Samkvæmt samþykktum veiðifélagsins er arði af sameiginlegri veiði skal skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá.

Félagsmenn í veiðifélaginu eru eigendur eftirtalinna jarða sem land eiga að vatnasvæði Láxár: Ásgarður, Árbær, Gerði, Hólar, Laugar, Leysingjastaðir, Skerðingsstaðir, Sælingsdalur og Sælingsdalstunga.

Fiskistofa hefur til umfjöllunar fiskræktaráætlun og nýtingaráætlun fyrir félagið, en þær hafa ekki verið staðfestar.

Um Laxá segir á vefnum veidiheimar.is:

„Laxá í Hvammssveit er lítil á í Dölum sem fellur til sjávar í Hvammsfjarðarbotn. Áin er dragá, mynduð af fjölmörgum ám og lækjum, en stærstar þeirra eru Sælingsdalsá og Svínadalsá. Svínadalsá var áður fiskgeng tæplega 1 km að Geirmundarfossi, en árið 2009 var sprengdur fiskvegur framhjá fossinum og opnaðist þá 2 km búsvæði ofan við fossinn. Lax getur gengið um 7 km leið í Sælingsdalsá, en Hólafoss neðst í ánni er veruleg gönguhindrun fyrir lax. Einnig verður vart við bleikju og urriða. Veiðileyfi eru ekki í boði fyrir almenning.“ Veiðiklúbburinn Laxmenn eru með ánna á sínum snærum.

Ekkert fasteignamat

Ekki verður séð að í neinni þessara jarða sé áin metin til fasteignamats. Þannig eru til dæmis Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi metin sem fasteign að tiltekinni fjárhæð hjá þeim jörðum sem eiga rétt til árinnar. Af fasteignamati eru greiddur fasteignaskattur til viðkomandi sveitarfélags.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast fasteignamatsskráninu og þaðan fást þau svör að ef jörðin eða jarðirnar eru í arðskrá laxveiðifélagsins þá eigi að vera skráð hlunnindi.  „En þessar upplýsingar liggja ekki alveg á lausu, við þurfum að finna arðskrána og fara yfir þetta áður en við getum gefið þér nákvæmara svar.“

Ríkisendurskoðandi er eigandi að einni jörðinni, Leysingjastöðum.

DEILA