Torfnes: upphitun gervigrass kostar fimm sinnum meira en hitun Grunnskólans á Ísafirði

Torfnesvöllur á fögrum sumardegi.

Árlegur kostnaður við upphitun gervigrass á Torfnesi nægir til að hita upp grunnskólann á Ísafirði í fimm ár samkvæmt því sem fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar sem lagt var fyrir bæjarráð i gær. Reiknaður er kostnaður við upphitunina miðað við fjórar sviðsmyndir. Í sviðsmynd 1 er miðað við að kerfið sé fjóra mánuði á hægum hraða eða um 70 w/m² og tvo mánuði á góðum afköstum 150 w/m². Miðað við framangreindar forsendur er kostnaður 25.266.286 kr.-/m.vsk. Virðisaukinn er ekki endurkröfuhæfur. Í sviðsmyndum 2 – 4 er miðað við minni kyndingu og er árlegur kostnaður frá 18 – 22 m.kr.

Til samanburðar er nefnt að árlegur kostnaður við upphitun gervigrasvallar samkvæmt sviðsmynd 1 nægir til að hita upp grunnskólann á Ísafirði í fimm ár, þar sem árlegur hitakostnaður í grunnskólanum er 5.308.157 kr.

Einnig kemur fram að árlegur hitakostnaður grunnskólans á Suðureyri er 1,4 m.kr. Á Þingeyri er árlegur hitakostnaður grunnskólans 2,1 m.kr. Íþróttahúsið Torfnesi, heitt vatn 2022 kostnaður nam 2,6 m.kr. Sundhöll Ísafjarðar, heitt vatn 2022 nam 5,9 m.kr. Íþróttamiðstöð Flateyri, heitt vatn 2022 nam 9,3 m.kr. Íþróttamiðstöð Þingeyri, heitt vatn 2022 nam 14,7 m.kr. (7,7+7m viðbót v. ótrykk orka) og Íþróttamiðstöð Suðureyri , heitt vatn 2022 nam 2,8 m.kr.

Þá kemur fram í minnisblaðinu að rekstur gervigrasvallarins á Dalvík er með þeim hætti að sveitarfélagið leggur til um 6 m.kr.- á ári í upphitun. Sú upphæð hefur dugað miðað við þá notkun sem lagt er upp með fyrir norðan. En vellinum er lokað c.a. frá 10 des. í 6 vikur. Hafa ber í huga að Dalvík er á heitu svæði og er orkan töluvert ódýrari þar en Ísafirði. Kerfinu á Dalvík, er ekki ætlað að bræða snjó af vellinum, heldur til þess að halda honum frostfríum. Að öðrum kosti er notast við léttan snjóblásara til þess að hreinsa völlinn. Orkugjald skv. orkumæli hitaveitu Dalvíkur kr. 2,51 pr. kWst án vsk., sbr. OV 6.69 kr/kWst. án vsk.

Bæjarstjóra var falið að afla frekari upplýsinga um einstök atriði og leggja aftur fyrir bæjarráð.

DEILA