Tálknafjörður: vilja fleiri störf við eftirlit og rannsóknir í fiskeldi

Í Norður Botni í Tálknafirði er fullkomnasta seiðaeldisstöð landsins. Framkvæmd upp á 4 milljarða króna.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ræddi á fundi sínum í vikunni um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi. Samþykkt var samhljóða eftirfarandi ályktun:

„Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu í fiskeldi kemur sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ekki á óvart þar sem ítrekað hefur verið bent á skort á eftirliti og rannsóknum með fiskeldi þau tólf ár sem fiskeldi hefur verið starfrækt í Tálknafirði. Skorað er á stjórnvöld að tryggja að fjármagn renni í þessa málaflokka til að hægt sé að bæta úr þeim vanköntum sem fram koma í skýrslunni. Jafnframt hafa sveitarfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum bent á nauðsyn þess að störf í eftirliti með fiskeldi og rannsóknum í greininni séu staðsett þar sem greinin er í öflugum rekstri. Sveitarfélögin hafa boðið fram húsnæði og aðstöðu á sunnanverðum Vestfjörðum til að svo geti orðið.

Mikil tækifæri eru í fiskeldi og greinin hefur stuðlað að uppbyggingu á Vestfjörðum eftir langt hnignunartímabil. Til að sú uppbygging haldi áfram og skili sem mestum verðmætum til samfélaganna á Vestfjörðum er nauðsynlegt að fjármagn renni einnig til þeirra sveitarfélaga þar sem mest þörf er á uppbyggingu í tengslum við fiskeldið þannig að hægt sé að styrkja samfélögin og þar með þróun greinarinnar í sátt við samfélag og náttúru.“

Tálknafjörður – fiskeldi frá 1979

Uppfært kl 16:46. Tálknafjarðarhreppur leiðréttir eitt atriði í bókun sinni. Þar segir að að fiskeldi hafi verið starfrækt í Tálknafirði í 12 ár.  Þetta er ekki rétt og leiðréttist hér með. – 1979 hófu Sigurjón Davíðsson og Jón Guðmundsson seiðaeldi á Sveinseyri í Tálknafirði. Síðan þá er saga fiskeldis í Tálknafirði samfelld til dagsins í dag.  Á tímabili var eldisstöð í Tálknafirði annar stærsti framleiðandi á bleikju í landinu.

DEILA