Strandsvæðaskipulagið stöðvar úgáfu nýrra eldisleyfa í Ísafjarðardjúpi

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Tillaga svæðisráðs að strandsvæðaskipulagi fyrir Vestfirði hefur stöðvað útgáfu nýrra leyfa til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun voru tilbúin með ný leyfi fyrir jól og þá var búist við því að Arnarlax og Arctic Fish fengju afgreiddar umsóknir sínar, sem verið hafa til umfjöllunar undanfarin tvö ár, en vegna þess að svæðisráðið ákvað á lokastigi tillögugerðar sinnar til ráðherra um svæðisskipulag að gera kröfu um að framkvæmt yrði svonefnt áhættumat siglinga var útgáfu leyfanna slegið á frest þar til umrætt mat hefði farið fram. Kom þetta í framhaldi af opinberri umræðu um siglingaleiðir og ljósgeisla vita á eldissvæðum þar sem m.a. Landhelgisgæslan setti fram gagnrýni á nokkur úthlutuð eldissvæði.

Tillagan að strandsvæðaskipulagi hefur verið send til Innviðaráðherra og hann hefur ekki afgreitt hana og hún því ekki tekið gildi, en engu að síður telur Matvælastofnun rétt að miða ákvarðanir sínar út frá því sem þar er lagt til.

Enn nýtt tafatilefni

Þessi vending í málinu virðist hafa komið fiskeldisfyrirtækjunum í opna skjöldu og getur valdið þeim umtalsverðu fjárhagslegu tjóni. Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish segir að fyrirtækið geri ráð fyrir að setja út seiði í vor og hafi undirbúið það undanfarna mánuði. Seiðin þurfa að vera orðin 200 gr við útsetningu og áformað er að setja út um eina og hálfa milljón seiða. Hvert seiði gæti kostað 200 – 300 kr. og auk þess er búið að leggja út fyrir miklum kostnaði í búnaði. Kostnaðurinn hlaupi á hundruðum milljóna króna. Nú sé alls óvíst að lokið verði við áhættumat siglinga tímanlega svo leyfin fáist tímanlega fyrir útsetningu seiða þetta árið. Gangi það ekki eftir gætu tapast miklir peningar og ekki síður samfélagið fyrir vestan orðið af umtalsverðum tekjum vegna seinkunar á atvinnuuppbyggingunni.

Daníel segist vonast til þess að stjórnvöld átti sig á mikilvægi málsins og muni á næstu vikum ljúka útgáfu leyfanna. Hann segir að umsóknin sé búin að vera í vinnslu frá 2016 og gert hafi verið umhverfismat fyrir öll eldissvæðin þar sem m.a. Vegagerðin, Siglingastofnun og Landhelgisgæslan hafi verið gefinn kostur á því að koma með sínar athugasemdir en ekki gert neinar.

Daníel minnir á að áður hefur útgáfa leyfi í Ísafjarðardjúpi tafist vegna nýrra ákvarðana stjórnvalda. Tekið var upp á sínum tíma áhættumat erfðablöndunar og þurfti að bíða 9 mánuði eftir því og nú hefur verið beðið í 9 mánuði eftir strandsvæðaskipulagi og enn þarf að bíða, nú eftir áhættumat siglinga.

Kvíastæðin eru við Sandeyri, Arnarnes og Kirkjusund og segir Daníel að ekkert þeirra sé í svonefndum hvítum geisla. Hafnir Ísafjarðar gerðu athugasemd á sínum tíma við kvíastæðið við Arnarnes og var þá brugðist við með lagfæringum á staðsetningunni.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta hefur Innviðaráðherra falið Landhelgisgæslunni, Siglingastofnun og Vegagerðinni að útbúa matsferil fyrir áhættumatið og hafa það tilbúið fyrir 24. febrúar. Að því loknu eiga stofnanirnar að hafa umsjón með því að gera áhættumatið fyrir þau svæði þar sem umsóknir bíða afgreiðslu hjá Matvælastofnun og leggja mat á mótvægisaðgerir þar sem þörf er á því. Ekkert liggur fyrir hvenær þessu verður lokið. Beðið er svara frá ráðuneytinu um það atriði.

Ellefu umsóknir um leyfi bíða afgreiðslu hjá Matvælastofnun og þar af eru 9 á Vestfjörðum. Stærstu málin eru umsóknir um rekstrarleyfi í Ísafjarðardjúpi frá Arnarlax og Arctic Fish.

-k

DEILA