Skýrsla Ríkisendurskoðunar: kemur ekkert á óvart

Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjókvíaeldi – lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit sem kom út í gær fjallar um stjórnsýslu fiskeldis og var unnin að beiðni Matvælaráðuneytisins. Matvælaráðuneytið hafði unnið að sjálfstæðri greiningu á regluverki fiskeldis en taldi mikilvægt að stjórnsýsla þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og undirstofnana þess, Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, yrði skoðuð sérstaklega. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu til Ríkisendurskoðunar höfðu ýmis atriði fiskeldislöggjafarinnar reynst erfið í framkvæmd og brotalamir komið fram við framkvæmd hennar.

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er að stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafi reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum. Ríkisendurskoðun segir að hvorki hagsmunaaðilar, viðkomandi ráðuneyti né þær stofnanir sem koma að stjórnsýslu sjókvíaeldis séu fyllilega sátt við stöðu mála og þann ramma sem stjórnsýslu og skipulagi sjókvíaeldis hefur verið markaður. 

Þær breytingar sem gerðar voru á lögum um fiskeldi árin 2014 og 2019 hafi að takmörkuðu leyti náð markmiðum sínum. Hvorki hefur skapast aukin sátt um greinina né hafa eldissvæði eða heimildir til að nýta þann lífmassa sem talið er óhætt að ala á tilteknum hafsvæðum verið úthlutað með útboði af hálfu matvælaráðherra.

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish sagði að niðurstöður Ríkisendurskoðunar kæmu ekkert á óvart. Stjórnsýslan hafi verið hægvirk og veikburða. Hann sagðist ekki líta á þetta sem gagnrýni á fyrirtækin frekar á stjórnvöld og stofnanir.

„Við fögnum því að þetta sé komið fram og vonum að stjórnvöld muni vinna að uppbyggingu greinarinnar með fyrirtækjunum.“ sagði Daníel Jakobsson að lokum.

DEILA