Samfylkingin með opna fundi á Suðurfjörðunum

Samfylkingin boðar til opinna funda á sunnanverðum Vestfjörðum: Í Hópinu á Tálknafirði kl. 17:00 sunnudaginn 12. febrúar og á hádegisfundi í Albínu á Patreksfirði kl. 12:00 mánudaginn 13. febrúar. Öll hjartanlega velkomin í samtalið.

Forysta og þingflokkur Samfylkingarinnar nýta kjördæmaviku á Alþingi í að taka samtal við landann og heimsækja nú 15 þéttbýlisstaði, 8 verkalýðsfélög og 30 vinnustaði í Norðvesturkjördæmi. Vegna ófærðar var fyrirhuguðum fundi á Ísafirði frestað síðastliðinn fimmtudag.

„Ég hlakka til að taka samtalið við Vestfirðinga. Okkar öflugi formaður, Kristrún Frostadóttir, er farin í fæðingarorlof — en það er að vísu stutt síðan hún hélt fjölda opinna funda á Vestfjörðum. Það er nú aðeins lengra síðan ég var í svona löguðu en ég er ánægður með að geta lagt lið í nýrri sókn jafnaðarmanna um land allt,“ segir Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar.

Ásamt Guðmundi Árna verða Arna Lára Jónsdóttir, ritari flokksins og bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, og þingmennirnir Þórunn Sveinbjarnardóttir og Dagbjört Hákonardóttir. Hópurinn byrjar á að skoða framkvæmdir Arctic Fish í Norður-Botni og heldur svo í Hópið. Að morgni mánudags verður fundur með ferðaþjónum á Bíldudal og heimsókn í Arnarlax, áður en haldið verður í Albínu og heimsóknir til VerkVest, Odda, Sjúkrahússins á Patreksfirði og á sveitarstjórnarskrifstofur Vesturbyggðar

DEILA