Ríkisendurskoðandi: engin spurning um hæfi

Guðmundur Björgvin Helgason Ríkisendurskoðandi segir að því fari „fjarri að eignarhald okkar hjóna á Leysingjastöðum í Dalabyggð veki upp spurningar um hæfi skv. 13. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Eiginkona mín, Helga Jóna Benediktsdóttir, hefur undanfarin ár gegnt stöðu formanns Veiðifélags Laxár í Hvammssveit en sú staðreynd hefur engin áhrif á hæfi mitt skv. fyrrgreindum lögum. Þess skal jafnframt getið að sjálfur hef ég engan þátt tekið í störfum Landssambands veiðifélaga.“

Um störf sín í landbúnaðarráðuneytinu og aðkomu að auglýsingu um bann við laxeldi árið 2004 segir Guðmundur:

„Sem ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytisins á árunum 2000 til ársloka 2007 bar ég ábyrgð á rekstri allra þeirra mála sem undir ráðuneytið féllu að lögum og útgáfu reglugerða þar um, þ.m.t. hvað varðar veiði í ám og vötnum, eldi vatnadýra og önnur veiðimál. Sem ráðuneytisstjóri var ég  fyrir hönd stjórnvalda um árabil í fyrirsvari gagnvart Norður-Atlantshafslaxaverndunarstofnuninni (North Atlantic Salmon Conservation Organization – NASCO). Um er að ræða eina sameiginlega samstarfsvettvang þeirra þjóðríkja sem land eiga að Norður-Atlantshafi um málefni laxins. Aðildarríki NASCO voru þá Bandaríkin, Danmörk (fyrir Færeyjar og Grænland), Evrópusambandið, Ísland, Kanada, Noregur og Rússland. Ísland sagði sig úr NASCO á árinu 2009 en aðild er að öðru leyti óbreytt nema að því leytinu til að Stóra Bretland varð aðili við úrsögn úr ESB. Það er rangt hjá þér að stofnunin beiti sér gegn sjókvíaeldi, enda er það stundað í töluverðum mæli hjá ríkjum innan vébanda NASCO. Stofnunin hefur með störfum sínum m.a. leitast við að lágmarka áhættu á erfðablöndun og útbreiðslu fisksjúkdóma, markmið sem hefur alla tíð farið saman við stefnu Íslands í málaflokknum. Meira er hægt að lesa um NASCO og fiskeldi hér: Aquaculture and Related Activities – NASCO. Því skal haldið til haga að ég gerði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd grein fyrir störfum mínum í þágu íslenskra stjórnvalda innan NASCO á fundum hennar nú í vikunni. Ekkert í þeim störfum vekur spurningar um hæfi ríkisendurskoðanda skv. fyrrgreindum lögum.“

DEILA