Ríkisendurskoðandi eigandi í laxveiðiá

Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi er eigandi að jörðinni Leysingjastöðum í Dalasýslu ásamt eiginkonu sinni Helgu Jónu Benediktsdóttur samkvæmt Lögbýlaskrá. Helga Jóna er formaður veiðifélags Laxár í Hvammssveit eftir því sem fram kemur á vef Fiskistofu. Veiðifélag Laxár er svo eitt af aðildarfélögum Landssambands veiðifélaga.

Meðalveiði á laxi í Laxá í Hvammssveit á árunum 1982 – 2018 var 49 fiskar samkvæmt skýrslu Hafrannsóknarstofnunar frá janúr 2020.

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga segir að krafa Landsambands veiðifélaga sé að sjókvíaeldi verði hætt þannig að útgáfu nýrra leyfa verði tafarlaust hætt og að gerð verði tímasett áætlun um að hverfa frá sjókvíaeldi að fullu. „það hefur verið skýr krafa frá LV um að sjókvíaeldi verði hætt og við viljum sjá það gerast eins hratt og hægt er.“ Hann vísar til ályktunar á aðalfundi samtakanna á síðasta ári: Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Mývatni dagana 3.-4. júní, krefst þess að gerð verði tímasett áætlun um að hverfa að fullu frá sjókvíaeldi á laxi hér við land.

Guðmundur Björgvin hefur komið að þessum málum á öðrum vettvangi. Hann var ráðuneytisstjóri í Landbúnaðarráðuneytinu árið 2004 þegar auglýst var bann við laxeldi í sjó á stórum hluta strandlengju landsins og skrifaði undir auglýsinguna sem ráðuneytisstjóri.

Guðmundur var inntur eftir því hvort hann teldi ekki hæfi sitt orka tvímælis til að vinna skýrslu Ríkisendurskoðunar  um sjókvíaeldi í ljósi þess að hann er eigandi jarðar með laxveiðihlunnindi og þar með í veiðifélagi sem er svo í Landssambandi veiðifélaga , en þau samtök berjast mjög ákveðið gegn öllu laxeldi og hvort ekki hefði verið rétt að gera grein fyrir þessu í skýrslunni.

Beðið er svara við fyrirspurninni.

Þá var hann um nokkurra ára skeið fulltrúi ríkisins í NASCO, North Atlantic Salmon Conservation Organization, samtökum um vernd laxastofnsins í Norður Atlantshafi, en Ísland sagði sig úr samtökunum eftir bankahrunið 2008.

Auglýsingin frá 2004 þar sem sjókvíeldi er bannað á stórum svæðum. Eins og sjá má undirritar núverandi Ríkisendurskoðandi auglýsinguna ásamt ráðherra. Spurt hefur verið um þau vísindalegu rök sem þá voru til stuðnings ákvörðuninni.

DEILA