Ríkið fellur frá kröfu um þjóðlendu á Hestfjalli í Ísafjarðardjúpi

Hesturinn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í síðasta mánuði sendi lögmaður íslenska ríkisins bréf til Óbyggðanefndar og tilkynnti um breytingar á kröfugerð ríkisins um þjóðlendu. Helstu breytingar varða eftirfarandi á kröfusvæði sem varðar Súðavíkurhrepp eru samkvæmt svörum Braga Þórs Thoroddsen, sveitarstjóra :

Hestfjall.  Íslenska ríkið fellur frá kröfu um þjóðlendu á Hestfjalli. Er fallist á að í landamerkjabréfi Hafurhests, auk landamerkjabréfa aðliggjandi jarða í Álftafirði, sé landamerkjum lýst að vatnaskilum, eða svæði sem liggur þar mjög nærri.

Borg.  Íslenska ríki gerir þá breytingu að fallast á að í landamerkjabréfi Borgar felist hringlýsing á merkjum jarðarinnar sem afmarkist m.a. af upptökum Hofsár auk þess sem tillit er tekið til fleir fyrirliggjandi gagna. Er þar fallist á upphafpunkt í kröfulínu sem markast við vatnaskilalínu sunnan Sjónfríðar yfir í upptök Hofsár, en það fellur einnig betur að kröfugerð landeigenda sem land eiga að og líkt og þeir hafa sjálfir talið að merkjum jarðanna sé rétt lýst.

Hestfjarðarkot:  Íslenska ríkið fer fram á að Hestfjarðarkot sé þjóðlenda eða kristfjárjörð og því ekki háð eignarhaldi Súðavíkurhrepps.

Varðandi Kleifar, Stóra kamb og Borg heldur ríkið við óbreytta kröfu um þjólendu hvað varðar jörðina Kleifar og vísar til þess að gögn bendi til þess (skriflegar heimildir) styðji að landamerki Kleifa hafi einungis náð að Ögurbúðardalsá en ekki Hundsá eins og í landamerkjabréfi frá 2010. Telur íslenska ríkið að engu breyti að Súðavíkurhreppur hafi undirritað nýtt landamerkjabréf. Telur íslenska ríkið að gagnkrafa Súðavíkurhrepps vegna Stóra kambs að Ögurbúðadalsá styðji kröfu íslenska ríkisins og þau sjónarmið að Kleifar eigi ekki land að Hundsá. Þá fellst íslenska ríkið á að kortagrunnur og örnefnamerkingar hafi reynst rangar í nokkrum tilvikum er varðar Borg, þ.a. að staðsetning Rjúkanda í Skötufirði hafi verið röng á kortum, en landeigendur Kleifa og Borgar voru sammála um ranga staðsetningu á kroti, en Rjúkandi afmarkar Stóra kamb að austanverðu. Íslenska ríkið breytir kröfugerð sinni hvað þetta varðar.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri.

Málið var tekið upp á síðasta fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps þar sem ágreiningur hefur verið milli Súðavíkur-hrepps og landeiganda að Kleifum í Skötufirði um gagnkröfu Súðavíkurhrepps og landamerki. Landamerkjadeila er ekki með aðilum, en Súðavíkurhreppur áskilur sér rétt til þess að verjast kröfum íslenska ríkisins um ákvörðun þjóðlenda innan þeirra landsvæða sem Súðavíkurhreppur telur í sinni eigu og hefur farið með sem slíka.

DEILA