Patreksfjörður: vilja skreyta lyftuhús við Aðalstræti 4

Dæmi um skreytingu sem gæti verið á lyftuhúsinu.

Íbúar í Aðalstræti 4, Patreksfirði, þau Kristín Pálsdóttir og Símon Fr. Símonarson hafa óskað eftir því Vesturbyggð að fá að skreyta lyftuhúsið fyrir aftan grunninn við Aðalstræti 4. Þau segja í erindi sínu: „Það væri skemmtileg viðbót við garðinn, mundi lífga mikið upp á umhverfið og færi ekki fram hjá neinum sem leið ætti um Strandgötuna. Yrði sem sagt mikil þorpsprýði. Ef leyfi fengist mundum við leita eftir styrk til verksins til félagasamtaka, s.s. til Lionsmanna.“

Þau segjast þegar hafa komið upp garðrækt á grunninum þar sem ræktað er allskonar grænmeti og fjöldinn allur af fallegum blómum. „Þar er alger unaðsreitur og dásamlegt að vera að sumarlagi.“

Meðfylgjandi er mynd af lyftuhúsinu og dæmi um veggmálningu Stefáns Óla sem þau myndu að öllum líkindum leita til með framkvæmdina.

Bæjarráð tók vel í erindið og fól sviðsstjóra umhverfis- og framvæmdasviðs að vera í sambandi við bréfritara.

Lyftuhúsið á Patreksfirði.

DEILA