Oddviti Tálknafjarðarhrepps: varasamt að leyfa meðhöndlun á laxi í partýtjaldi

Frá löndun á eldislaxi á Ísafirði. Mynd: aðsend.

Lilja Magnúsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps og fulltrúi í heilbrigðisnefnd Vestfjarða bókaði á fundi nefndarinnar fyrir helgi athugasemdir sínar við löndun á laxi í Ísafjarðahöfn á vegum Arctic Fish. Segir hún varasamt að leyfa slíkt og að það sé þvert á allar kröfur um aðstöðu og aðbúnað í vinnslu matvæla. Kallar Lilja aðstöðuna sem komið hefur verið upp partýtjald.

Orðrétt er bókunin:

„Ég tel að þar sem birst hafa fréttir í fjölmiðlum af meðhöndlun á laxi í partýtjaldi á bryggjunni á Ísafirði sé sett mjög varasamt fordæmi með að leyfa slíka starfsemi þvert á allar kröfur um aðstöðu og aðbúnað í fyrirtækjum sem vinna með matvæli.“

Heilbrigðisnefndin tók ekki neina afstöðu til bókunarinnar. Í heilbrigðisnefndinni eiga sæti auk Lilju, Guðbjörg Þrastardóttir, Jón Hörður Elíasson, Jónas þór Birgisson og Guðrún Ingibjörg Halldórsdóttir. Fulltrúi atvinnurekenda er Einar Valur Kristjánsson. Jónas Þór og Guðrún voru ekki á fundinum samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta.

Arctic Fish hefur fengið norska vinnsluskipið Norwegian Gannet til landsins til þess að slátra upp úr kvíum fyrirtækisins í Dýrafirði. Er laxinum landað á Ísafirði og ekið þaðan til frágangs til útflutnings suður eða austur á land.

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish sagði í samtali við Bæjarins besta að fyrirtækið hefði haft samband við Matvælastofnun og fengið þaðan þau svör að litið væri á löndunina á laxinum sem löndun á fiski og væri ekki leyfisskylt. Hvorki færi fram flokkun né vinnsla á Ísafirði heldur væri fiskurinn látinn renna í kör, sem færu svo á bíla.

DEILA