Mengun af skemmtiferðaskipun: vel innan marka í fyrra í Reykjavík

Í framhaldi af umræðu um mengun af skemmtiferðaskipum er fróðlegt að skoða eftirfarandi frétt á vef Faxaflóahafna:

Loftgæðamælir Faxaflóahafna á Laugarnesi sýnir að mengunarefni vegna viðlegu skemmtiferðaskipa og annarra skipa á Skarfabakka, fóru ekki yfir skilgreind umhverfismörk á árinu 2022 í neinu tilviki og eru vel fyrir neðan þau mörk sem skilgreind eru í reglugerð.

Verkfræðistofan Vatnaskil greindi niðurstöður mælinga frá loftgæðastöð Faxaflóahafna í Laugarnesi með hliðsjón af umhverfismörkum reglugerða og skipakomum við Skarfabakka. Markmið loftgæðastöðvar á Laugarnesi er einkum að fylgjast með því hvort umtalsverð mengun komi frá skemmtiferðaskipum meðan þau liggja við Skarfabakka í Sundahöfn. Staðsetning mælistöðvarinnar var ákvörðuð 2020 að undangengnum útreikningum Verkfræðistofunnar Vatnaskil á ákjósanlegustum stað til að greina mengun frá skipum við Skarfabakka. Mengunarefni sem greind voru eru eftirfarandi: köfnunarefnissambönd (NO, NO2, NOx), brennisteinssambönd (SO2, H2S) og svifryk af mismunandi stærð.

Mælingar í rauntíma úr loftgæðamæli Faxaflóahafna eru aðgengilegar almenningi hér

„Það er stefna Faxaflóahafna að lágmarka áhrif skipaumferðar á loftgæði í og við hafnir fyrirtækisins.  Við teljum að stöðugar og trúverðugar mælingar sé forsenda að upplýstri ákvarðanatöku á þessu sviði.  Einnig fögnum við því að mæligildin eru aðgengileg almenningi, milliliðalaust og í rauntíma.   Þannig teljum við að traust myndist á milli atvinnulífsins og íbúa í nágrenni hafna okkar“, segir Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Samantekt Verkfræðistofunnar Vatnaskil á mælingum úr loftgæðamæli Faxaflóahafna á Laugarnesi fyrir árið 2022 má nálgast hér

Í niðurstöðum segir : „Fyrirliggjandi mælingar mengunarefna fara ekki í neinum tilvikum yfir umhverfismörk sem skilgreind eru í reglugerðum“ og „Ekki er að sjá að styrkur annarra mengunarefna sé marktækt hærri þegar vindur blæs frá Skarfabakka þegar skip eru á staðnum.“

DEILA