Lilja Magnúsdóttir: allar undanþágur slæmt fordæmi

Lilja Magnúsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps.

Lilja Magnúsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps og fulltrúi í heilbrigðisnefnd Vestfjarða segir að Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hafi ekkert með leyfisveitingar haft að gera „varðandi þessa vinnslu á bryggjunni á Ísafirði. Það er Matvælastofnun sem veitti þessa undanþágu. Mín skoðun er sú að allar svona undanþágur frá þeim lögum og reglum og þeim kröfum sem allar vinnslur þurfa að uppfylla sé afar slæmt fordæmi. Það eru gerðar miklar kröfur til allra fyrirtækja með starfsleyfi, sama í hvaða geira þau eru og svona undanþágur veikja mjög aðstöðu eftirlitsaðila í þeirra starfi og grefur undan trúverðugleika fyrirtækja í matvælaiðnaði sama hver þau eru. Því lýsti ég óánægju minni með þessa undanþágu.“

Lilja Magnúsdóttir bókaði á fundi heilbrigðisnefndar í síðustu viku að meðhöndlun á eldislaxi í tjaldi á bryggjunni á Ísafirði sé sett mjög varasamt fordæmi því að leyfa slíka starfsemi væri þvert á allar kröfur um aðstöðu og aðbúnað í fyrirtækjum sem vinna með matvæli.

Laxinum er að lokinni slátrun landað á Ísafirði í kör sem síðan fara um borð í flutningabíl og er ekið í aðra landshluta til frágangs til útflutnings.

Mast: engin vinnsla, aðeins löndun

Frá Matvælastofnun fengust þau svör að vinnsluskipið Norwegian Gannet hefði alla leyfispappíra líkt og fullbúið sláturhús og vinnsla og því skipinu veitt full heimild veitt fyrir þessari tilhögun á slátrun laxa úr kvíum í Dýrafirði.

Þá væri löndun laxins á Ísafirði að lokinni slátrun um borð á Norwegian Gannet aðeins löndun og engin vinnsla færi fram. „Ekki þarf nein sérstök leyfi hjá MAST til þess að landa fiski.“ segir í svari Matvælastofnunar.

DEILA