Landsréttur: farþegagjald fyrndist

Húsavík.

Landsréttur sneri við í síðustu viku dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra og sýknaði hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík af kröfum Norðurþings um greiðslu á farþegagjaldi. Fyrirtækið Gentle Giants –Hvalaferðir ehf. neitaði að greiða farþegagjald og sagðu það ekki eiga sér stoð í gjaldskrá hafnarinnar. Um mánaðarlega reikninga var að ræða frá september 2008 til nóvember 2019. Árið 2018 var fyrirtækinu boðið að gera samkomulag um uppgjör krafnanna og tekið fram krafan byggði á þremur reikningum, þ.e. reikningi dags. 31. október 2008, að fjárhæð kr. 1.778.022, reikningi dags. 16. desember 2010, að fjárhæð kr. 2.396.899, og reikningi dags. 30. september 2016, að fjárhæð kr. 5.416.320.

Taldi héraðsdómur að tveir fyrri reikningarnir væru fyrndir en dæmdi Gentle Giants_Hvaaferðir ehf til þess að greiða reikninginn frá 2016. 5.416.320 kr. en felldi niður málskostnað. Hvalaskoðunarfyrirtækið undi ekki dómnum og áfrýjaði til Landsréttar.

Landsréttur segir í dómi sínum að fyrir liggi að Hvalaskoðunarfyrirtækið vanrækti að láta stefnda í té upplýsingar um farþegafjölda í samræmi við ákvæði gjaldskrárinnar fyrr en eftir því var leitað með bréfi hafnarstjóra 22. júlí 2016. Sveitarfélagið átti þann kost að krefja áfrýjanda um upplýsingar um farþegafjölda strax að liðnum fimmta degi hvers mánaðar. Að fengnum þeim upplýsingum gat það krafist efnda á skyldu til greiðslu farþegagjaldanna fyrir næstliðinn mánuð. „Hefði áfrýjandi enn látið hjá líða að upplýsa um farþegafjölda verður að leggja til grundvallar að hafnarstjórn hefði eigi að síður getað krafist greiðslu á farþegagjöldum á grundvelli áætlunar þótt ekki hafi verið vikið að því í gildandi gjaldskrá. Svo sem áður hefur verið rakið reiknast fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda, sbr. 2. gr. laga nr. 150/2007. Í samræmi við það sem að framan er rakið verður að miða við að fyrningarfrestur á farþegagjaldakröfum stefnda hafa byrjað að líða strax í kjölfar mánaðarlegs skilafrests á upplýsingum umfarþegafjölda samkvæmt 22. gr. gjaldskrárinnar. Allar kröfur stefnda vegna farþegagjalda fyrir fyrstu 11 mánuði ársins 2015 voru því fyrndar er málið var höfðað.“ segir í niðurstöðu Landsréttar þar sem málið hafi ekki verið höfðað með birtingu stefnu fyrr en 29. desember 2019 og hafi þá verið liðin meira en fjögur ár frá því að því að stefndi gat krafist efnda á farþegagjöldum sem féllu til fyrstu 11 mánuði ársins 2015.

Landsréttur dæmdi því fyrndan reikninginn frá 2016 og Hvalaskoðunarfyrirtækið þarf ekkert að greiða. Auk þess þarf Norðurþing að greiða fyrirtækinu 3,5 m.kr. í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

DEILA